Enn eitt Alzheimer-lyfið?

Lyfið lofar góðu en mun kosta sitt.
Lyfið lofar góðu en mun kosta sitt. mbl.is/Ómar Óskarsson

Alzheimersamtökin fara ávallt með gát þegar kynnt eru ný lyf gegn sjúkdóminum sem lofa góðu. Nýja lyfið, Iecanemab, sker sig þó úr fjöldanum að sögn Vilborgar Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra samtakanna. 

„Það hafa í raun ekki komið góðar fréttir af lyfjamálum í 25 ár. Lyfin sem eru í notkun núna eru ekki að gera neitt að ráði, þannig við höfum beðið lengi eftir þessu,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Strangar kröfur eru gerðar til lyfjanna og hefur rannsóknum á lyfjum sem glæddu vonir fólks oft verið hætt vegna alvarlegra aukaverkana.

„Í fyrsta skipti raunveruleg von“

Vilborg Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Alzheimersamtakanna.
Vilborg Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Alzheimersamtakanna. Ljósmynd/Alzheimersamtökin

„Oft hafa komið bakslög með tilheyrandi vonbrigðum,“ segir Vilborg og bætir við að því sé farið varlega í yfirlýsingar. Dæmi um þetta er Alzheimer-lyfið Aducanumab, sem íslenskur hópur var fenginn í prófanir á, sem síðar var hætt við vegna alvarlegra aukaverkana.

Lyfið, sem var talið byltingarkennt, hefur verið samþykkt af Lyfjaeftirliti Bandaríkjanna en ekki af Lyfjastofnun Evrópu.

„Núna í fyrsta skipti virðist vera raunveruleg von um að eitthvað hafi tekist. Hin hliðin er sú að ef þetta lyf kemst á markað, þá verður það dýrt. Það mun kannski kosta tugi milljóna á ári fyrir einn einstakling. Þannig að það fá ekki allir þessi lyf,“ segir Vilborg. 

Nýgreindir líklegri til að fá lyfið ef það kemst á markað

Læknar hafi gefið út að velja þurfi einstaklingana vel, sem fái lyfið, og þá verði það líklega fólk sem er tiltölulega skammt gengið með sjúkdóminn, nýgreint eða með lítil einkenni. Því sé tilkoma lyfsins ekki endilega góðar fréttir, fyrir fólk sem sé nýgreint með sjúkdóminn, enda séu nokkur ár í að lyfið verði sett á markað.

„Þetta eru samt góðar fréttir fyrir heiminn, vegna þess að það mun fjölga í þessum hópi á næstu árum og áratugum. Það eru að koma upp stórir árgangar og aldur er áhættuþáttur í þessum sjúkdómi. Hann kemur vanalega fram um miðjan aldur,“ segir Vilborg.

Lyfið hefur ekki farið í gegn hjá Lyfjastofnun Evrópu en Vilborg telur líklegt að því verði hleypt hratt í gegn. Þá sé enn álitamál hve mikil kostnaðarþátttaka íslenska ríkisins yrði.

„Þetta kallar líka á greiningar fyrr, til dæmis getu til þess að greina sjúkdóminn snemma í blóði,“ segir hún.

Ísland sé ekki komið á þann stað í greiningum.

mbl.is