VR aftur í kjaraviðræður

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

VR, Landssamband íslenzkra verzlunarmanna (LÍV) og samflot iðn- og tæknigreina hafa ákveðið að taka höndum saman í yfirstandandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins (SA).

Samninganefndir aðila vísuðu viðræðum til ríkissáttasemjara um miðjan síðasta mánuð og hafa frá þeim tíma unnið að því að ná nýjum samningi sitt í hvoru lagi, en án árangurs, að því er segir í tilkynningu.

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði hafa verið lausir í rúman mánuð. Innan þessa samflots er félagsfólk alls um 59 þúsund.

„Ríkur vilji er meðal stéttarfélaganna að vinna saman að nýjum kjarasamningi hratt og vel og standa vonir til þess að góð niðurstaða náist fljótlega,“ segir í tilkynningunni. 

Innan samflots iðn- og tæknigreina eru MATVÍS, Rafiðnaðarsamband Íslands, Samiðn og VM en félögin funda nú í Karphúsinu með SA. Búist er við að sá fundur standi yfir til klukkan 18. 

mbl.is