„Stór samningafundur“ á morgun

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttarsemjari er sáttur við vinnu samninganefnda.
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttarsemjari er sáttur við vinnu samninganefnda. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í Karphúsinu í dag hafa vinnuhópar fjallað um afmörkuð málefni en á morgun er aftur komið að stórum fundi samninganefnda og Samtaka atvinnulífsins.

„Það eru búnir að vera í húsi í allan dag nokkrir vinnuhópar að fjalla um og kafa á dýptina í afmörkuðum málefnum. Sú vinna gengur vel og heldur áfram fram eftir degi,“ segir Aðalsteinn Leifsson ríkissáttarsemjari í samtali við mbl.is.

„Það er mjög mikið að gera á milli funda. Það er bæði ýmis konar athuganir og greiningar hjá samningsaðilum. Síðan er mikil vinna í þessum smærri hópum þar sem sérfræðingar beggja aðila hittast til þess að fara í gegnum ýmiss málefni sem snerta samningaviðræðurnar.“

„Síðan er ég búinn að boða sameiginlegan fund samningsaðila á morgun klukkan 10. Það er stór samningafundur, viðræðunefnda allra samningsaðila, það er að segja samfloti iðnaðarmanna og tæknimanna, Landssamband íslenskra verslunarmanna og VR, og Samtaka atvinnulífsins.“

Fundurinn er áætlaður að vera til klukkan 6 en samningsaðilar virðast hafa verið sveigjanlegir um hvenær eigi að slíta fundi.

„Við höfum náð mjög virkum og góðum vinnudögum, ekki mikið verið að vinna fram á nótt, en við höfum nýtt dagana vel og stundum verið langir dagar fram kvöld.“

„Ég er mjög ánægður með þá vinnu sem samninganefndirnar eru að leggja á sig. Ég er sáttur við það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert