„Ef það er lokað þá eiga menn ekki að fara áfram“

Rútan sat fyrst föst við Pétursey í Mýrdal, eftir að …
Rútan sat fyrst föst við Pétursey í Mýrdal, eftir að bílstjóri virti lokanir að vettugi. Ljósmynd/Landsbjörg

Framkvæmdastjóri Hópbíla segir verið að afla gagna vegna máls þar sem bílstjóri rútu á þeirra vegum virti að vettugi lokanir á Suðurlandi á jóladag með þeim afleiðingum að rútan sat föst og hamlaði björgunarsveitarstarfi. Rútunni var svo aftur ekið af stað í austurátt að Jökulsárárlóni í gær þrátt fyrir lokanir, en ekki liggur fyrir hvernig það ferðalag gekk.

„Við erum bara að skoða málið. Við erum að afla okkur gagna og þetta er í ferli hjá okkur innanhúss. Við vitum ekki nægilega mikið til að tjá okkur,“ segir Guðjón Ármann Guðjónsson framkvæmdastjóri Hópbíla í samtali við mbl.is.

Um 30 erlendir ferðamenn voru í rútunni en fyrst hunsaði bílstjóri hennar lokanir á þjóðvegi 1 á jóladag, með þeim afleiðingum að rútan festist og þveraði veginn við Pétursey í Mýrdal. Eftir að björgunarsveitarfólki tókst að losa rútuna hélt bílstjórinn áfram í leyfisleysi og festi hana aftur við Hótel Dyrhólaey þar sem hún sat þversum í brekku og ekki var hægt að koma fólki í gistingu á hótelinu fyrir vikið.

Ferðafólkið í góðu yfirlæti

Er eitthvað búið að ræða við bílstjórann?

„Þetta er bara í ferli, fólk er náttúrlega í góðu yfirlæti þarna á hótelinu. Við erum að reyna að ná skýrari mynd og afla okkur gagna.“

Guðjón segir um hefðbundinn ferðamannahóp að ræða á vegum ferðaskrifstofu, en hann segist ekki vita hvaða ferðaskrifstofu.

Er það krafa af ykkar hálfu að bílstjórinn haldi áfram þrátt fyrir lokanir?

„Ég veit það ekki. Við erum að reyna að komast að því.“

Aðspurður vildi hann ekki svara hver staðan væri núna, hvar ferðafólkið væri og hvort rútan væri stopp.

Sambærileg mál ekki komið upp

Hann segir sambærileg mál ekki hafa komið upp hjá fyrirtækinu áður. „Það er ekki í okkar verklagi.“

Hverjar eru ykkar leiðbeiningar til bílstjóra í þessum aðstæðum? Er það skýrt að þegar það er lokað þá eigi bílstjóri ekki að halda áfram?

„Ef það er lokað þá eiga menn ekki að fara áfram, það gefur augaleið.“

Guðjón vonast til að frekari upplýsingar um málið liggi fyrir síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert