Alltaf hægt að bæta samskiptin

Framkvæmdastjóri SAF kallaði eftir betri samskiptum í Morgunblaðinu í dag.
Framkvæmdastjóri SAF kallaði eftir betri samskiptum í Morgunblaðinu í dag. mbl.is/Arnþór

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir Vegagerðina og Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) eiga í góðum samskiptum.

Jóhannes Þór Skúlason, formaður SAF, kallaði eftir bættum samskiptum í Morgunblaðinu í dag.

„Við eigum reglulega fundi með Samtökum ferðaþjónustunnar. Við erum nýbúin að vera á löngum fundi með þeim þar sem við vorum að fara yfir hvernig vetrarþjónustu Vegagerðarinnar er háttað.

Við erum í mjög góðum samskiptum við ferðaþjónustuna og Jóhannes á að vita það,“ segir G. Pétur.

Skoðar að auka fyrirsjáanleika

G. Pétur segir aðspurður að Vegagerðin sé ávallt að skoða það hvernig megi auka fyrirsjáanleika vegalokana en íslenskt veðurfar setji þar oft strik í reikninginn.

„Eins og allir Íslendingar þekkja þá er veðurfar á Íslandi þannig að það er ekki hægt að segja neitt ákveðið um hlutina. Ég held að þetta ástand síðustu daga sýni það greinilega. Hér eru björgunarsveitirnar búnar að standa í ströngu við það að bjarga fólki,“

„Þegar þú ert kominn með allan þennan fjölda ferðamanna þá margfaldast vandinn. “

G. Pétur segir þó að alltaf sé hægt að bæta samskiptin. Ágætt væri ef viðbragðsaðilar og ferðaþjónustan fundaði saman og ræddu hvað hægt væri að bæta.

„Það mætti allavega hugsa sér það að fara yfir þessi mál og sjá hvað er mögulegt í stöðunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert