Sækja jólatré til fólks og safna fyrir skólaferðalagi

Drengirnir við störf í dag.
Drengirnir við störf í dag. mbl.is/Óttar

„Það eru komnar 70 pantanir,“ segja drengirnir ungu, nánast allir í kór, sem gefið sig hafa út fyrir að sækja jólatré til förgunar gegn greiðslu á Kársnesinu í Kópavogi.

En fyrir hverju eruð þið að safna?

„Við erum að safna fyrir skólaferðalagi á Reyki sem verður í næsta mánuði.“

Þeir Hrafn Helgason, Tómas Berg Dagsson, Brynjar Ingólfsson og Kristján Karl Bergmann Valtýsson eru nemendur í 7. bekk Kársnesskóla. Þeir segja foreldra sína hafa fengið þessa hugmynd að fjáröflun fyrir komandi skólaferðalag að Reykjum í Hrútafirði.

Hrafn Helgason, Tómas Berg Dagsson, Brynjar Ingólfsson og Kristján Karl …
Hrafn Helgason, Tómas Berg Dagsson, Brynjar Ingólfsson og Kristján Karl Bergmann Valtýsson. mbl.is/Óttar

Inga Sigurðardóttir, móðir Brynjars, segir að Kópavogsbær hafi alltaf hirt trén en í ár sé sá háttur hafður á að gámum hefur verið komið fyrir víðs vegar um bæinn svo fólk geti farið sjálft með tré sín til förgunar.

„Þannig að við fengum þessa hugmynd og ákváðum bara að láta vaða og viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Við mömmurnar erum að hjálpa þeim með þetta verkefni. Auk mín eru það Sigurrós Hymer, mamma Hrafns, Elín Erna Magnúsdóttir, mamma Tómasar og Linda Jónsdóttir, mamma hans Kristjáns. Við erum svona allar saman í þessu,“ segir Inga.

Strákarnir hafa haft í nægu að snúast.
Strákarnir hafa haft í nægu að snúast. mbl.is/Óttar

En hvernig leist strákunum á þessa hugmynd foreldra sinna?

„Okkur leist mjög vel á þetta. Það eru komnar svolítið margar pantanir en við getum örugglega sótt öll trén um helgina. Við sóttum 20 tré í gær og þetta er bara mjög gaman.“

En er ekkert erfitt að rogast með trén í sköflunum?

„Nei, það kemur okkur svolítið á óvart hvað þetta er gaman. Þetta er ekkert erfitt.“

Dugnaðurinn leynir sér ekki.
Dugnaðurinn leynir sér ekki. mbl.is/Óttar

Strákarnir segja engar aðrar fjáraflanir fyrirhugaðar fyrir ferðina á Reyki. En hvað segja bekkjarfélagarnir?

„Þeir vita ekki af þessu,“ segja strákarnir í einum kór.

En hvað segja strákarnir, er þetta upphafið að litlu fyrirtæki?

„Við höfum nú ekkert hugsað um það en það er aldrei að vita,“ segja þessir hressu duglegu strákar úr Kópavogi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert