„Fráleitt að kalla þetta tilraun til valdaráns“

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er í Rio de Janeiro.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson er í Rio de Janeiro. Samsett mynd

„Það er allt með kyrrum kjörum hér í Rio de Janeiro, þar sem ég er,“ segir Hannes Hólmsteinn Gissurarsson við mbl.is sem nú er staddur í Brasilíu þar sem stuðningsmenn Jair Bolsonaro, fyrrverandi forseta Brasilíu, hafa mótmælt embættistöku Luiz Inacio Lula da Silva.

„Óeirðirnar virðast vera bundnar við nokkra staði í höfuðborginni Brasíliu, en það var líka eitthvað um mótmæli í stærstu borg Brasilíu, São Paulo,“ segir hann.

Lula reynir að kenna forvera sínum um

„Margir furða sig á, að þessi hópur skemmdarvarga og óeirðaseggja, sem var ekki ýkja fjölmennur, skyldi geta hertekið hús Hæstaréttar og þinghúsið og komist inn í forsetahöllina. Gæsla á þessum stöðum virðist ekki hafa verið ströng, og raunar hefur fylkisstjórinn í borginni verið settur af.

Allir þeir hægrimenn, sem ég þekki hér og þeir eru allnokkrir, fordæma þessar aðgerðir einum rómi. Hinn nýkjörni forseti Lula reynir að kenna forvera sínum, Jair Bolsonaro, um hústökurnar, en Bolsonaro mótmælir því harðlega og fordæmir afdráttarlaust þessar aðgerðir.

Hann segir að menn eigi auðvitað rétt á því að mótmæla, en þeir verði að halda sig innan lýðræðislegra leikreglna. Raunar hefur formaður flokks Bolsonaros sagt að allir þeir flokksmenn, sem hafi tekið þátt í aðgerðunum, verði reknir.“

Ekki sambærilegt mótmælunum í Washington

Mótmælin í Brasilíu eru því ekki sambærileg hinni illræmdu árás á þinghúsið í Washington-borg í janúar 2011 að mati Hannesar, „sem Donald Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseti, var ótrúlega tregur til að fordæma. Aðgerðirnar núna voru greinilega í óþökk Bolsonaros.“

„En stuðningsmenn Bolsonars eiga sumir erfitt með að sætta sig við úrslitin, enda munaði sáralitlu á fylgi þeirra í forsetakjörinu, Lula fékk 50,9% og Bolsonaro 49,1%, og atkvæði frá norðausturhlutanum, þar sem vinstrimenn eru öflugir, réðu úrslitunum á síðustu stundu. Hér í Rio de Janeiro hlaut Bolsonaro meirihluta atkvæða í forsetakjörinu.

Ég held, að fráleitt sé að kalla þetta tilraun til valdaráns, heldur voru þetta lítt skipulagðar aðgerðir nokkur hundruð manna, þar sem óeirðaseggir og skemmdarvargar nota tækifærið, svipað og óeirðirnar á Austurvelli í janúar 2009.“ 

mbl.is