Hermikennsla geti fjölgað læknanemum

165 milljónum hefur verið úthlutað til verkefnisins.
165 milljónum hefur verið úthlutað til verkefnisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

165 milljónum króna hefur verið úthlutað frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra til Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Háskólans í Reykjavík á meðal annarra, til þess að setja á fót færni- og hermisetur þar sem nemendur í heilbrigðismenntun geta fengið hermikennslu. 

Felst hún í því að herma með tæknibúnaði eða leiknum sjúklingum eftir raunverulegum aðstæðum, aðgerðum eða inngripum í öruggu umhverfi ásamt leiðbeinanda án þess að heilsu sjúklings sé stefnt í hættu. Heilbrigðisráðuneytið leggur sambærilegt framlag til verkefnisins sem er unnið í samstarfi ráðuneytanna tveggja. 

Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ.
Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ.

Mikilvæg stoð í fjölgun læknanema

„Ég er ánægður með að það sé að koma stuðningur í þetta. Við höfum lagt áherslu á það í samtali við spítalann að fara þessa leið, að vera með færni- og hermisetur. Þetta er að mörgu leyti framtíðin, að geta gert þetta öðruvísi en að fara með nemendurna á spítala,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, í samtali við mbl.is. Um sé að ræða mikilvæga stoð í því að fjölga læknanemum.

Það er verið að vinna að því að fjölga læknanemum. Læknadeild og heilbrigðisvísindasvið hafa verið að skoða þetta í samstarfi við Landspítalann. Þetta mun ekki gerast næsta haust en ætlunin er að á komandi árum verði jafnvel hægt að fjölga læknanemum í 75 og síðar 90 á ári,“ segir Jón Atli. Áfram þurfi að eiga samstarf við stjórnvöld til þess að efla fjármögnun háskólakerfisins, svo Ísland verði samanburðarhæft við Norðurlöndin.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Arnþór

Hægt að stunda nám þvert á háskóla

Yfir milljarði króna hefur verið úthlutað til aukins samstarfs háskóla, með það að markmiði að auka gæði námsins og samkeppnishæfi skólanna.

„Gæði verkefnanna eru mikil og fjölbreytt og munu án vafa hafa mjög jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Stórar breytingar geta orðið með því að nemendur geti stundað meistaranám þvert á háskóla á Íslandi, aukin gæði námsins og á sama tíma hagkvæmni í mjög dreifðu háskólakerfi,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Verkefnin sem fengu úthlutanir voru mörg og mismunandi:

  • 35 milljónir til allra háskólanna svo hægt sé að taka meistaranám við marga skóla samtímis
  • 33 milljónir til Háskólans í Reykjavík (HR) og Háskólans á Akureyri (HA) til þess að setja á laggir B.Sc. nám í iðnaðar- og orkutæknifræði fyrir tæknifræðinga á Akureyri
  • 30 milljónir króna til HA, HÍ og HR til þess að fjölga brautskráningum í STEM-greinum, þ.e. vísindum, tækni, verkfræði og stærðfræði
  • 90 milljónir króna til HÍ og HR til þess að koma á legg tveggja ára meistaranámi og rannsóknarsetri í netöryggi
  • 58 milljónir króna til Hóla, HÍ, HA, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskólasetur Vestfjarða o.fl. til þess að bjóða upp á BS og MS nám í eldi, ræktun og nýtingu sjávar- og vatnalífvera samhliða samræmdum rannsóknum og rannsóknainnviðum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert