Ekki bannað að sturta snjó í sjó

Snjór keyrður á uppfyllingu við Sundahöfn. Þessum snjó var ekki …
Snjór keyrður á uppfyllingu við Sundahöfn. Þessum snjó var ekki keyrt beint í hafið, en sjórinn fær eitthvað að berja samt á honum. mbl.is/Árni Sæberg

Í fréttaflutningi í vetur, og raunar síðustu ára, má sjá að misjafnt er eftir sveitarfélögum hvort snjó sé sturtað út í sjó eða ekki þegar snjósöfnun er mikil. 

Nýlega var til að mynda greint frá því á vef Víkurfrétta að ekki væri sami háttur hafður á við að farga snjó í Reykjanesbæ eða í Grindavík. 

„Við vinnum eftir lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda frá árinu 2004. Níunda greinin fjallar um bann við að varpa efnum og hlutum í hafið. Við höfum fengið fyrirspurnir um hvort þetta teljist til þess en við lítum svo á að losun á hreinum snjó falli ekki undir það ákvæði í lögunum,“ segir Katrín Sóley Bjarnadóttir sérfræðingur í teymi hafs og vatns hjá Umhverfisstofnun í samtali við mbl.is. 

„Við höfum rætt það hér innanhúss að æskilegt væri að Umhverfisstofnun, sveitarfélög og hafnarstjórar ræði saman um umhverfisvænar aðferðir til að losa sig við snjóinn þegar snjóþungt er. Í snjónum geta leynst mengandi efni og maður sér það gjarnan á litnum á snjónum. Í honum geta leynst þungmálmar, olía og það sem kemur af götunum eins og málning, slit af dekkjum, rusl, plast og jafnvel örplast. Ef mikið magn er sett á einn stað í höfninni þá getur mengun orðið sýnileg í sjónum. Þar af leiðandi væri til bóta að ræða um að útbúa leiðbeiningar um umhverfisvænar leiðir til að losa sig við snjóinn og viðbrögð við sýnilegri mengun.“ 

Höfðu samband við alla hafnarstjóra

Umhverfisstofnun hefur haft samband við hafnarstjóra á landinu og óskað eftir því að þeir fylgist með því hvort förgun á snjó í höfnum valdi mengun í sjónum. 

„Við sendum póst á alla hafnarstjóra og báðum þá um að fylgjast vel með í þeim höfnum þar sem svona losun er leyfð. Við óskum eftir því að þeir bregðist við ef þeir verða varir við sýnilega mengun og grípa til viðeigandi hreinsunaraðgerða. Er það raunar á ábyrgð hafnarstjóra að bregðast við mengun innan hafnarsvæðis samkvæmt lögum en afmörkun hafnarsvæðis er reyndar nokkuð misjöfn. Hafnirnar eru með mengunarvarnarbúnað sem hægt er að grípa til ef þeir sjá eitthvað á yfirborði sjávar eins og olíu,“ segir Katrín Sóley og segir að hlífa skuli viðkvæmum svæðum. 

„Við viljum auðvitað ekki að verið sé að losa á viðkvæmum svæðum. Hafnirnar eru sæmilegur kostur en Reykjavíkurborg hefur til dæmis fundið einhver svæði á landi þar sem eitthvað síast í gegnum jarðveginn. Þá er hægt að taka frá óæskilega hluti sem þú vilt ekki að fari út í sjó,“ segir Katrín Sóley en bendir einnig á að síðustu tvö árin hafi verið mun snjóþyngri á höfuðborgarsvæðinu heldur en árin þar á undan. Ef snjórinn hefði ekki safnast upp í svona miklu magni þá færi hann út í jarðveg og að lokum út í sjó eða í gegnum götulagnir og þaðan út í sjó. 

Snjómokstur hefur verið talsvert í umræðunni á nýju ári.
Snjómokstur hefur verið talsvert í umræðunni á nýju ári. mbl.is/Þorgeir Baldursson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert