Tölvuþrjótar afrituðu lykilorð og kennitölur

Háskólinn á Akureyri
Háskólinn á Akureyri Ljósmynd/HA

Tölvuþrjótar brutust inn á netþjón Háskólans á Akureyri í gær. Rannsókn hefur leitt í ljós að þeim hafi tekist að afrita notendanöfn, lykilorð, kennitölur og símanúmer allra notenda tölvukerfis HA.

Í tilkynningu frá Háskólanum á Akureyri eru notendur beðnir að breyta lykilorðum sínum við fyrsta tækifæri. Þá er mælt með að notendur tileinki sér notkun auðkenningar-apps fremur en SMS-leið við innskráningu í nýju tveggja þátta auðkenningarkerfi innan veggja skólans.

Kerfisstjórn KHA vill þá benda notendum að vera varir um sig fái þeir SMS og hvetja þá til að ýta ekki á hlekki eða gefa öðrum aðilum upp númer sem í þeim kunna að vera.

Atvikið hefur verið tilkynnt til Persónuverndar og skráð á upplýsingasíðu HA, þar sem hægt verður að fylgjast með framvindu mála.

Nánar er hægt að lesa um málið á vef Háskólans á Akureyri.

mbl.is