Einhverjir hafa drekkt bifreiðum sínum

Frá umferðinni í morgunsárið.
Frá umferðinni í morgunsárið. mbl.is/Árni Sæberg

Nokkur dæmi er um að ökumenn hafi drekkt bifreiðum sínum í umferðinni í morgun, þ.e. fengið vatn inn á vélina þannig að drepist hefur á henni eftir að hafa keyrt í gegnum stóra polla eða vatn sem safnast hefur saman á götunum.

Að öðru leyti virðist umferðin í morgun hafa gengið mjög vel og ekkert útkall hefur verið hjá umferðardeild lögreglunnar enn sem komið er.

Lögreglan með mikla viðveru

Hörður Lilliendahl, varðstjóri hjá umferðardeild, segir deildina hafa verið töluvert á rúntinum í morgun en það helsta sem þeir hafi orðið varir við voru 2-3 bifreiðar sem hefði verið drekkt. Sagði hann fólk enn hafa verið í bifreiðunum og benti fólki sem lendir í slíkum málum að hafa samband við Vöku eða aðra sambærilega þjónustu.

„Það er ekkert meiri umferð en venjulega,“ segir hann spurður hvort umferðin hafi verið þung. Segir hann einnig greinilegt að í flestum tilfellum sé það skynsemin sem ráði för og að fólk hafi hægt aðeins á sér í morgunumferðinni.

Varar hann ökumenn við vatni sem safnast í hjólförum sem og nokkrum svæðum þar sem vatn hefur safnast upp vegna stíflaðra niðurfalla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert