Segir ríkið hafa orðið af um 530 milljónum króna

Sigurður Þórðarson, fyrrverandi settur ríkisendurskoðandi, bar vitni í aðalmeðferð Héraðsdóms …
Sigurður Þórðarson, fyrrverandi settur ríkisendurskoðandi, bar vitni í aðalmeðferð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Frigus II ehf. á hendur Lindarhvoli og íslenska ríkinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Þórðarson, fyrrverandi settur ríkisendurskoðandi í málefnum Lindarhvols, bar vitni fyrir dómi í dag í máli Frigusar II ehf. á hendur Lindarhvoli og íslenska ríkinu.

Lindarhvoll hafði til sölumeðferðar hlut ríkisins í Klakka ehf. og skuldakröfur, en Frigus II ehf. var einn þriggja aðila sem lögðu fram kauptilboð í eignina. Forsvarsmenn félagsins töldu sig hafa lagt fram hæsta tilboðið og þannig hefði félagið verið hlunnfarið í söluferlinu þegar tilboði annars félags, BLM fjárfestinga ehf., var tekið.

Sigurður skilaði greinargerð með athugasemdum við skýrslu ríkisendurskoðunar vegna málefna Lindarhvols en hann var settur ríkisendurskoðandi vegna vanhæfis skipaðs ríkisendurskoðanda í málinu á sínum tíma.

Hann var þá settur af í kjölfar skipunar nýs ríkisendurskoðanda sem ekki var talinn vanhæfur í málinu.

Gerði athugasemdir við aðkomu Steinars Þórs

Innihald greinargerðar Sigurðar hefur ekki fengið að líta dagsins ljós til þessa en hvorki ríkisendurskoðandi né forseti Alþingis hafa viljað birta greinargerðina.

Sigurður var við vitnaleiðslur spurður nokkuð um atriði sem fram koma í greinargerðinni. Hann sagðist standa við athugasemdir sínar við söluferli hlutar ríkisins í Klakka. Þær snúa helst að aðkomu Steinars Þórs Guðgeirssonar, stjórnarmanns í Klakka, sem einnig var ráðinn til að vera eins konar framkvæmdastjóri Lindarhvols í gegnum lögmannsstofu sína, Íslög.

Sigurður sagði að þrátt fyrir að Steinar Þór hefði búið yfir mikilvægri reynslu hefði hans aðkoma verið óþörf. Sigurður spurði sig hvers vegna ríkið hefði búið til eignarhaldsfélagið Lindarhvol.

Samningur var í kjölfarið gerður við lögmannsstofu Steinars Þórs. Sigurður sagði framkvæmdina hafa birst sér og sínu fólki þannig að Steinar Þór hefði verið nánast allt í öllu.

Hann sagðist ekki hafa skoðað hvort lögmannsstofan hefði aðskilnað sem uppfyllti kröfur um innra eftirlit. Sigurður sagði Steinar Þór hafa verið víða og líklega hefði ekki verið nægjanlegur aðskilnaður starfa.

Sigurður sagði að í skýrslu ríkisendurskoðanda hefði verið talað um að allir hefðu verið inn í málum Lindarhvols og nefndi sem dæmi að bókari hjá Íslögum hefði greitt rekstrarreikninga Lindarhvols.

Skynsamlegra að hafa ekki selt hlut ríkisins í Klakka

Þá gerði Sigurður grein fyrir verðmati á nauðasamningum við kröfuhafa Klakka með því að fara í reikningsskil Klakka sem voru opinber. Sigurður fékk þá Stefán Svavarsson endurskoðanda til að aðstoða sig við verðmatið.

Niðurstaða þeirra var að virðið væri 950 milljónir króna. Endanlegt söluverð hlutar ríkisins varð 423 milljónir króna. Það eru 505 milljónir króna samkvæmt kauptilboði BLM fjárfestinga að frádregnum 82 milljónum króna sem fengust upp í kröfurnar eftir á.

Þannig telur Sigurður að hlutur ríkisins á Klakka hafi verið seldur á undirverði að fjárhæð um það bil 530 milljónir króna.

Sigurður sagði þá að líklega hefði verið skynsamlegast að selja ekki hlut ríkisins í Klakka, heldur halda honum og taka við því sem fengist upp í kröfurnar. Það rökstuddi hann með þeim hætti að í lok janúar 2021 hefðu fengist upp í kröfurnar um 862 milljónir króna og þá átti eftir að dreifa um 120 milljónum króna.

Sigurður kvaðst, spurður af Steinari Þór lögmanni Lindarhvols og íslenska ríkisins í málinu, ekki hafa rannsakað markaðsvirði hlutar ríkisins í Klakka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert