Víðir hissa á lýsingum ljósmyndara

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra. mbl.is/Árni Sæberg

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, segir umfjöllun Sunnudagsmoggans um starfsskilyrði blaðaljósmyndara á örlagaríkum augnablikum hafa komið sér í opna skjöldu.

Muni fara yfir málið með fulltrúum BÍ

„Þetta var bara áhugavert að lesa þetta og sjá þeirra upplifun. Maður verður að bera virðingu fyrir upplifun annarra þó maður sé kannski ekki alltaf sammála hlutunum. Ég held að þessi upplifun kalli á aukið samstarf á milli okkar og Blaðamannfélagsins ef þetta er upplifun ljósmyndara af aðgengi ljósmyndara að hamfarasvæðum, þá er ágætt að fara yfir málið,” segir Víðir í samtali við mbl.is.

Þeir Ragnar Axelsson, Einar Falur Ingólfsson, Gunnar V. Andrésson og Páll Stefánsson lýsa þungum áhyggjum af framtíð blaðaljósmyndunar á Íslandi í Sunnudagsmogganum. Þeir segja yfirvöld hafa lítinn skilning á hlutverki þeirra í skrásetningu Íslandssögunnar.

Tekur undir sjónarmið um söguskráningu

Víðir segir vert að hlusta þegar þeir taki til máls:

„Þarna eru reynsluboltar í þessum geira sem hafa verið lengi að og það er gott að þessar hugrenningar séu komnar fram þannig að við getum hitt fulltrúa Blaðamannfélagsins og tekið þessa umræðu, ég held að það sé bara nauðsynlegt.

Víðir segist reka minni til fundar um málið árið 2010 með Ragnari Axelssyni og Ómari Ragnarssyni en annars hafi þetta ekki verið til umræðu sérstaklega hjá embættinu.

Hann tekur undir með ljósmyndurunum um að þeirra hlutverk sé að fanga söguna en minnir á að það sé að endingu alltaf hlutverk lögreglustjóra í hverju umdæmi að taka endanlegar ákvarðanir um lokanir.

„Það er auðvitað þannig að það er enginn á staðnum þegar við erum með viðbragðsaðila að vinna í lífsbjargandi aðstæðum, þá eru þeir fyrst og fremst að hugsa um það en ekki skráningu sögunnar,“ segir Víðir.

„Það er alveg ljóst að þegar að við horfum til baka og erum að rifja upp atburði og jafnvel leita að kennslu- og fræðsluefni til þess að miðla til viðbragðsaðila þá hefur myndefni, bæði hreyfi- og ljósmyndir skipt miklu máli.“

Almannavarnir sinni ekki fréttaflutningi

Víðir kannast ekki við það að almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra sé að taka fram fyrir hendur fjölmiðla með birtingu frétta á heimasíðu sinni.

„Við erum auðvitað bara með vefsíðu þar sem við segjum frá því sem við erum að gera og samfélagsmiðla þar sem við miðlum upplýsingum. Við notum þessa miðla fyrst og fremst til að miðla upplýsingum til almennings en ég held að við séum ekki beint í neinum fréttaflutningi.“

Víðir segir almannavarnadeild ríkislögreglustjóra eiga í mjög góðum samskiptum við flesta ljósmyndara og þá sérstaklega þá sem vinni á prentmiðlum. Þau eigi nánast í daglegum samskiptum.

Víðir Reynisson, Þórólfur Guðnason og Alma Möller voru til viðtals …
Víðir Reynisson, Þórólfur Guðnason og Alma Möller voru til viðtals nær daglega árin 2020 og 2021. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjölmiðlar hafi fengið greiðan aðgang í Covid

Hann bendir þar sérstaklega á heimsfaraldur Covid-19 þar sem ljósmyndarar og tökumenn voru sjaldan langt frá.

„Það er ekki hægt að segja annað en að við séum opin fyrir þessum samskiptum og skráningu.“

Kannast ekki við þá þróun sem ljósmyndararnir lýsa

Víðir segist ekki kannast við þá þróun sem lýst er í greininni þar sem ljósmyndararnir fjórir lýsa því að aðgengi hafi með tímanum orðið minna og minna.

„Nei ég átta mig ekki alveg á því. Mér finnst við frekar hafa verið í þá áttina að opna meira fyrir þetta. Á árum áður voru gefnir út sérstakir passar til fjölmiðla, núna er búið að afnema það og blaðamannaskíretni duga nú til þess að menn fái að komast í gegnum lokanir. Við vitum það alveg að þegar upp koma skyndilegar aðgerðir þá er svæðum lokað á meðan menn ná tökum á hlutunum og átta sig á því hvort einhver sé í hættu,“ segir Víðir en bendir á að þessar lokanir vari oft í mjög skamman tíma fyrir fjölmiðlamenn og talar um mínutur frekar en klukkustundir í því samhengi.

Frá eldgosinu í Holuhrauni.
Frá eldgosinu í Holuhrauni. Photo: Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert