„Þetta eru vonbrigði að sjálfsögðu“

Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, ræddi við mbl.is um fyrirhugað …
Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, ræddi við mbl.is um fyrirhugað verkfall. Samsett mynd

„Við erum auðvitað að vona að ef það verður verkfall, að það verði þá ekki í langan tíma,“ seg­ir Davíð Torfi Ólafs­son, fram­kvæmda­stjóri Íslands­hót­ela, í samtali við mbl.is um fyrirhugað verkfall hjá Íslandshótel hf. og Fosshótel Reykjavík ehf., en það fyrr­nefnda rek­ur einnig það síðar­nefnda. 

Hann segir að niðurstaðan hafi ekki beint komið á óvart í ljósi sögunnar. „En auðvitað vorum við alltaf að halda í von. Þetta eru vonbrigði að sjálfsögðu,“ segir Davíð. 

Komi ekki upp kergja á milli fólks

„Okkar viðbrögð núna eru fyrst og fremst að halda utan um starfsfólkið okkar,“ segir hann og bætir við að margar spurningar hafi vaknað hjá starfsfólki. Því hafi morgunninn snúist um að lægja öldurnar. 

„Það er númer eitt, tvö og þrjú hjá okkur. Að það komi ekki upp einhver kergja á milli fólks sem að sagði já og þeirra sem sögðu nei.“

189 einstaklingar greiddu atkvæði af þeim 287 sem voru á kjörskrá. 124 samþykktu verkfallið en 58 voru á móti því, 7 óskuðu eftir að taka ekki afstöðu en atkvæðagreiðslan var rafræn. 

Davíð segir að verið sé að undirbúa starfsemi hótelanna svo að sem minnst röskun verði. Gestir sem eiga bókun er verkfallið hefst verða upplýstir um stöðu mála en strax og fréttir bárust af verkfallsboðun var gripið til þess ráðs að loka fyrir fleiri bókanir er verkfallið hefst.

Alltaf einhver ófyrirsjáanleiki

Vinnustöðvunin hefst eftir viku, 7. febrúar, á öllum hótelum keðjunnar í Reykjavík og er ótímabundin. 

Spurður hvernig undirbúningur fari fram, þegar óvíst sé hversu lengi verkfallið standi yfir, segir Davíð hann vera erfiðan.

„Við erum að taka stöðuna og þurfum auðvitað að reyna plana þetta eins mikið og við getum, en það er auðvitað alltaf einhver ófyrirsjáanleiki í þessu,“ segir hann og bætir við að einn dagur sé tekinn í einu, „eða jafnvel einn klukkutími í einu“.

„Það langar engan að vera í verkfalli – og alls ekki í langan tíma.“

mbl.is