„Nú er ég fallin á tíma“

Umræða um útlendingafrumvarpið stendur yfir á Alþingi.
Umræða um útlendingafrumvarpið stendur yfir á Alþingi. mbl.is/Hákon

Nú er ég fallin á tíma. Ég mun halda áfram að ræða 6. grein [útlendingafrumvarpsins] í næstu ræðu minni og væntanlega þeirri þarnæstu líka og bið forseta að setja mig aftur á mælendaskrá,“ sagði Arndís Anna Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, í umræðu um útlendingafrumvarpið á þingi í dag.

Málið rætt í 40 klukkustundir

Önnur umræða frumvarpsins hefur nú staðið yfir í um 40 klukkustundir og hafa þingmenn Pírata skipst á að koma upp í pontu og ræða frumvarpið, lesa upp umsagnir um það og þræða sig í gegnum greinar þess.

Gagnrýnt að fólk eigi ekki rétt á sömu þjónustu

„Varðandi 6. grein þá snýst þetta um að svipta fólk þjónustu, sem er gríðarlega lítil. Varla hægt að kalla það þjónustu en eitthvað verðum við að kalla það,“ sagði Arndís í ræðu sinni í kvöld en Mannréttindastofnun HÍ hefur talið að greinin þarfnist endurskoðunar, þar sem slíkt geti talist til ómannúðlegrar meðferðar og í andstöðu við 68. gr. stjórnarskrárinnar.

Jón Gunnarsson hefur sagt það vonbrigði að málið hafi tafist og að frumvarpið sé viðbragð við því ástandi sem er uppi um þessar mundir þegar kemur að flóttafólki og innflytjendamálum.

„Samt fara þau ekki úr landi“

„[Þetta er gert] Í því skyni að knýja fólk til þess að yfirgefa landið. En það sem við sáum glöggt á erindi sem við sáum uppi í Háskóla Íslands fyrr í dag, þar sem verið var að kynna skýrslu Rauða Krossins stöðu fólks í svokallaðri umborinni dvöl, að þessir einstaklingar eru í gríðarlega slæmri stöðu. Þeir upplifa sig í fangelsi, njóta gríðarlega lítilla réttinda, búa í óviðunandi húsnæði og sjá enga von, en samt fara þau ekki af landi. samt fara þau ekki heim. Af einhverjum ástæðum fara þau ekki heim,“ sagði Arndís.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa gagnrýnt útlendingafrumvarpið harðlega og vakið athygli á neikvæðum umsögnum um frumvarpið frá mannréttindasamtökum á borð við Amnesty International, Rauða krossinn og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands.

mbl.is