Tíu stofnanir sameinaðar í þrjár

Veðurstofan, ÍSOR og Vatnajökuls- og Þingvallaþjóðgarðar falla undir sameiningu og …
Veðurstofan, ÍSOR og Vatnajökuls- og Þingvallaþjóðgarðar falla undir sameiningu og uppstokkun ráðherrans.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, kynnti á fundi ríkisstjórnar í gær þau áform að sameina tíu af stofnunum ráðuneytisins í þrjár stofnanir, eða Náttúruverndar- og minjastofnun, Náttúruvísindastofnun og Loftslagsstofnun.

Megináhersla er þar lögð á að tryggja áfram fyrirliggjandi mannauð og þekkingu og að starfsfólk njóti forgangs til nýrra starfa, að því er kemur fram í tilkynningu.

Í morgun hélt ráðherra fund með starfsmönnum stofnana ráðuneytisins þar sem ákvörðunin var kynnt. Vinna hófst síðastliðið sumar við að greina tækifæri til endurskipulagningar á stofnanakerfi ráðuneytisins.

Stofnanirnar verða þrjár eins og áður sagði:

  • Náttúruverndar- og minjastofnun: Þar sameinast Vatnajökulsþjóðgarður, Þjóðgarðurinn á Þingvöllum, náttúruverndarsvið Umhverfisstofnunar og Minjastofnun.
  • Náttúruvísindastofnun: Þar sameinast Náttúrufræðistofnun Íslands, Veðurstofa Íslands, Landmælingar Íslands, ÍSOR (Íslenskar orkurannsóknir) og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn.
  • Loftslagsstofnun: Þar sameinast Orkustofnun og öll svið Umhverfisstofnunar utan náttúruverndarsviðs.

Sóknarfæri í fjölgun starfa á landsbyggðinni

„Stóra markmiðið er að efla stofnanir ráðuneytisins til að takast á við gríðarlegar áskoranir sem bíða okkar sem samfélags og eru þar loftslagsmálin efst á blaði. Með nýju stofnanaskipulagi er stefnt að því að auka skilvirkni og draga úr sóun sem hlýst af tvítekningu og skorti á sam­starfi. Einnig eru mikil sóknarfæri í fjölgun starfa á landsbyggðinni, fjölgun á störfum óháð staðsetningu og uppbyggingu eftirsóknarverðra vinnustaða,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra, í tilkynningunni.

Í undirbúningi er að setja strax af stað vinnu með fulltrúum stofnana í sambandi við mannauðsmál, húsnæðismál og upplýsingatækni. Gert er ráð fyrir að vinna við lagafrumvörp um nýju stofnanirnar þrjár verði í forgangi. 

Stofnanir ráðuneytisins í dag eru 13 með um 600 starfsmenn á um 40 starfsstöðvum víða um land og eru 61% starfanna á höfuðborgarsvæðinu.

Þær stofnanir sem heyra undir ráðuneytið eru: Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR), Landmælingar Íslands, Minjastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn, Orkustofnun, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Umhverfisstofnun, úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, Úrvinnslusjóður, Vatnajökulsþjóðgarður, Veðurstofa Íslands og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert