Umræðan farin að tefja afgreiðslu annarra mála

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis.
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Umræða um frum­varp dóms­málaráðherra um út­lend­inga­lög heldur áfram á Alþingi í dag,  sjötta þingdaginn í röð sem frumvarpið er á dagskrá. Birg­ir Ármannsson, for­seti Alþing­is, segir umræðuna vera farna að taka mjög langan tíma. Ekki sé annað í stöðunni en að lengja þingfundi og eftir atvikum fjölga þeim.

„Umræðan hefur sinn gang og telja Píratar þá sérstaklega mikilvægt að fara í margar ræður um þetta. Mér sýnist sem svo að þingmenn annarra flokka telji málið vera fullrætt að svo stöddu. Það liggur fyrir að eftir aðra umræðu muni málið ganga til nefndar að nýju áður en það kemur til þriðju umræðu,“ segir Birgir.

Tefur afgreiðslu annarra mála

Mál­inu var frestað fyr­ir jól í samn­ing­um um þing­frest­un og stendur ekki til að fresta því aftur. Birgir bendir á að málið sé óhjákvæmilega farið að tefja afgreiðslu annarra mála. 

„Það er orðið ljóst að þessi umræða mun þurfa að taka einhvern tíma en reynslan er sú að ef önnur mál eru tekin á dagskrá undir svona kringumstæðum þá tefjast umræður um þau oft líka. Það er þá eins gott að menn tali því máli sem þeir hafa áhuga á en séu ekki að tefja þingstörfin með því að fara út langar ræður um önnur mál,“ segir Birgir.

mbl.is