Appelsínugular viðvaranir að skella á

Fólk er hvatt til að sýna varkárni og fylgjast með …
Fólk er hvatt til að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Appelsínugular viðvaranir taka gildi á öllu Norðurlandi og Ströndum rétt fyrir hádegi og munu þær gilda til til klukkan 15 í dag. Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjóra á þessum svæðum lýst yfir óvissustigi almannavarna vegna veðurs.

Þá eru gular viðvaranir í gildi í flestum landshlutum og munu gilda lengst til miðnættis í kvöld á Austurlandi og Norðurlandi vestra.

Um er að ræða sunnan hvassviðri eða storm með talsverðri rigningu sunnan- og vestanlands. Úrkomulítið verður hins vegar norðaustantil. Veður fer hlýnandi í dag og verður hiti á bilinu 5 til 11 síðdegis. Í kvöld kólnar þó vestanlands með éljum.

Vegna mikilla sviptivinda í hlýrri sunnanáttinni, allt að 45 til 50 m/s, getur verið varasamt að vera á ferðinni í dag á Snæfellsnesi, Vestfjörðum og Norðurlandi. Víða eru vegir flughálir að auki.

Líkur á eldingum

Á morgun verður suðvestan hvassviðri eða stormur og él víða um landið en lengst af þurrt norðaustantil. Þá fer veður kólnandi og gert er ráð fyrir því að hiti verði í kringum frostmark seinni partinn.

Skörp kuldaskil fara yfir landið á þriðjudag með snjókomu eða rigningu. Nálægt skilunum hvessir talsvert og má búast við stormi, jafnvel roki á meðan þau fara yfir. Auk þess eru líkur á eldingum í skilunum.

Fólki er hvatt til að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.

Veðurspá næstu daga:

Á þriðjudag:
Sunnan stormur með snjókomu eða slyddu, en snýst í suðvestan hvassviðri með éljum þegar líður á daginn. Hiti víða um eða undir frostmarki, en upp í 5 stig með suðurströndinni.

Á miðvikudag:
Minnkandi suðvestlæg átt og él, en yfirleitt bjart norðaustantil, 8-15 m/s seinni partinn. Frost 2 til 9 stig. Norðlægari um kvöldið og kólnar.

Á fimmtudag:
Vestlæg eða breytileg átt 8-15 m/s og dálítil él. Vaxandi suðaustanátt um kvöldið og þykknar upp sunnantil. Kalt í veðri.

Á föstudag:
Stíf suðaustlæg átt og víða snjókoma en síðar rigning sunnantil, sums staðar talsverð eða mikil úrkoma. Hvöss suðvestanátt þegar líður á daginn með skúrum. Frost 0 til 8 stig, en allt að 6 stiga hiti við suðurströndina.

Á laugardag:
Útlit fyrir að lægð fari yfir landið með breytilegum áttum og talsverðri úrkomu um allt land. Hiti í kringum frostmark.

Veður á mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert