Segja gæsluvarðhald og einangrun undantekningu

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra. Samsett mynd/mbl.is

Dómsmálaráðuneytið segir villandi að fullyrða að gæsluvarðahaldi og einangrun sé beitt sem einskonar meginreglu við rannsókn sakamáli og að úrræðinu sé misbeitt. Þessum úrræðum sé aðeins beitt í undantekningartilvikum gagnvart einstaklingum sem eru handteknir og það sýni tölfræði. Þá segir ráðuneytið að horfa þurfi til mismunandi heimilda til varðhalds hér á landi og í nágrannalöndunum þegar tölfræði á varðhaldi og einangrun milli landa er skoðuð. Jafnframt telur ráðuneytið skilgreiningu á einangrun ekki eiga við um aðstæður hér á landi.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í svörum ráðuneytisins vegna skýrslu sem Amnesty international á Íslandi gaf nýlega út um gæsluvarðhald og einangrun hér á landi. Var þar meðal annars bent á að einangrunarvist væri hér beitt óhóflega og að ítrekað væri brotið gegn alþjóðlegu banni gegn pyntingum og annarri ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, meðal annars með að beita einangrun gegn börnum og einstaklingum með fötlun og geðraskanir. Þá segir ráðuneytið ekki hægt að verða við áskorun um að taka einangrunarákvæði alfarið úr lögum.

Í skýrslunni kom meðal annars fram að sex af hverjum tíu gæsluvarðhaldsföngum hér á landi hafi árið 2021 sætt einangrunarvist og að á tímabilinu 2012 til 2021 sættu 825 einstaklingar einangrunarvist. Af þeim voru tíu á aldrinum 15-17 ára.

Í framhaldi af þessu hefur meðal annars fangelsismálastjóri stigið fram og sagt óeðlilegt að fatlaðir og börn séu vistuð í einangrun.

Sæta „aldrei slíkri einangrun hérlendis“

Í tilkynningu dómsmálaráðuneytisins á eigin vef kemur fram að megingagnrýni Amnesty beinist að notkun einangrunarvistar, ekki síst hjá 15-17 ára. Vísar ráðuneytið í skilgreiningu Amnesty á einangrunarvist þar sem segir:  „vistun án innihaldsríkra samskipta við aðra manneskju í  22 klukkustundir á sólarhring.“ Ráðuneytið segir þetta ekki eiga við einangrunarvist barna. „Samkvæmt staðfestum upplýsingum Fangelsismálastofnunar sæta einstaklingar, á þessum aldri, aldrei slíkri einangrun hérlendis,“ segir í tilkynningunni.

Ekki er nánar vikið að því hvað sé öðruvísi í slíkri vistun hér en þessi skilgreining tiltekur, en þó er nefnt að fangaverðir sem sinni föngum í einangrun séu mjög meðvitaðir um erfiða upplifun sem það er að sæta einangrun og leggi sig fram um að eiga virðingarverð samskipti og sýni þeim alúð. Þá segir að Fangelsismálastofnun muni leita leiða til að auka samskipti og þjónustu við þá sem sæti einangrun.

Einangrunarvist í gæsluvarðhaldi er beitt óhóflega hér á landi að …
Einangrunarvist í gæsluvarðhaldi er beitt óhóflega hér á landi að mati Amnesty. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einangrun í 0,6% til 1,2% tilvika

Í tilkynningunni er bent á að sakhæfisaldur á Íslandi sé 15 ára og að þegar um sé að ræða einstaklinga 15-17 ára sé ávallt skoðað hvort möguleiki sé á vistun utan fangelsis, þ.e. úrræði á vegum barnaverndaryfirvalda. Ef það tekst ekki í upphafi sé það reynt eins fljótt og kostur sé á og að ef þörf reynist á fangelsi til einangrunar þá fylgi því ekki samgangur við aðra og eldri fanga.

Ráðuneytið bendir á að aðeins í 1-2% tilvika sé farið fram á gæsluvarðhald yfir þeim sem eru handteknir hér á landi. Hinir séu látnir lausir innan 24 klukkustunda, en það er sá tími sem lögregla hér á landi getur hneppt einstaklinga í varðhald án þess að fá úrskurð dómara. Af þessum 1-2% sé svo farið fram á einangrun í um 60% tilvika. Því sé aðeins notast við einangrun í 0,6% til 1,2% af öllum þeim tilvikum þar sem fólk er handtekið. Segir ráðuneytið því villandi að fullyrða að þetta úrræði sé einskonar meginregla. „Tölfræði sýnir þvert á móti að gæsluvarðhaldi og einangrun er beitt í undantekningartilvikum gagnvart einstaklingum sem eru handteknir og grunaðir um refsiverða háttsemi.“

Nágrannalönd með rýmri heimildir

Vísar ráðuneytið jafnframt til þess að á Íslandi séu fæstir gæsluvarðhaldsfangar á hverjum degi á hverja 100 þúsund íbúa. Þeir séu 6 á Íslandi á árunum 2012 til 2020, en til samanburðar séu þeir 11 í Finnlandi, 16 í Svíþjóð, 18 í Noregi og 21 í Danmörku.

Þá er bent á að í nágrannalöndum okkar hafi lögregla jafnan 48-72 klukkustundir til þess að rannsaka sakamál með sakborning í varðhaldi án þess að bera málið undir dómara. Á þeim tíma fær sakborningur aðeins að hringja í sinn lögmann, fær ekki heimsóknir og fær ekki að umgangast aðra fanga. „Þennan tímamun gæti þurft að hafa í huga þegar borin er saman tölfræði á milli landa um gæsluvarðhaldsúrskurði og einangrunarvist,“ segir í tilkynningunni.

Ísland er aðili að alþjóðlegum skuldbindingum sem varða stöðu frelsissviptra, meðal annars á vegum Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins. Segir í tilkynningunni að unnið sé að ýmsum bótum eftir athugasemdir þessara aðila, en þær snúa meðal annars að þjónustu við þá sem hafa verið frelsissviptir. Ætlar ráðuneytið einnig að fara vandlega ofan í skýrslu Amnesty og þær ábendingar sem þar kom fram. Er sérstaklega vísað til athugasemda um heilbrigðisþjónustu og lofar ráðuneytið að farið verði vandlega yfir aðkomu geðheilbrigðisfólks til að draga úr skaðlegum áhrifum einangrunarvistar.

Sérstök gæsluvarðhaldseining í skoðun

Þá vísar ráðuneytið til þess að á þingmálalista í vetur sé frumvarp um breytingu á sakamálalögum þar sem meðal annars er verið að skoða athugasemdir sem komu fram í úttrekt á vegum Sameinuðu þjóðanna, einkum sem við koma börnum og fólki með geðræn vandamál, líkt og Amnesty beinir spjótum sínum að.

„Í þeirri uppbyggingu sem stefnt er að í fangelsismálum er sérstaklega til skoðunar að koma fyrir gæsluvarðhaldseiningu þar sem unnt er að viðhafa takmarkanir vegna rannsóknarhagsmuna sem ganga skemur en einangrun (símabann, heimsóknarbann, fjölmiðlabann o.þ.h.),“ segir í tilkynningunni.

Ekki á því að afnema beri einangrun

Ráðuneytið segir að við rannsókn sakamála sé það forgangsatriði að sakborningar geti ekki spillt sönnunargögnum eða þar sem fleiri sakborningar séu til staðar sammælst um framburð. Því noti lögregluyfirvöld um allan heim ákveðnum samskiptatakmörkunum á fyrstu stigum rannsókna. „Að mati dómsmálaráðuneytisins er því ekki unnt, þrátt fyrir afstöðu Amnesty International, að taka slík úrræði alfarið úr lögum enda virðast önnur ríki ekki hafa farið þá leið,“ segir í tilkynningunni, en bætt er við að ráðuneytið taki undir með Amnesty að einangrun skuli aðeins beita í algjörum undantekningartilfellum þegar ljóst er að önnur úrræði dugi ekki til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert