Fatlaðir og börn eiga ekki heima í einangrun

Páll Winkel vill ekki vista andlega veika einstaklinga í fangelsi.
Páll Winkel vill ekki vista andlega veika einstaklinga í fangelsi. mbl.is/Hari

Páll Winkel fangelsismálastjóri telur óeðlilegt að fatlaðir einstaklingar og börn séu vistuð í einangrun eins og tíðkast hefur hérlendis.

Í nýrri skýrslu Amnesty International kemur fram að einangrunarvist í gæslu­v­arðhaldi sé beitt óhóflega hér á landi og að ítrekað sé brotið gegn alþjóðlegu banni gegn pynt­ing­um og ann­arri ómann­legri eða van­v­irðandi meðferð eða refs­ingu. Einangrunarvist í gæsluvarðhaldi sé meðal annars beitt gegn ein­stak­ling­um með fötl­un og geðrask­an­ir, sem og börnum. En slíkt eigi aldrei að líðast.

Ekki með ákvörðunarvald

Páll segir að Fangelsismálastofnun muni taka mið af nokkrum ábendingum sem koma fram í skýrslunni. Hann segir stofnunina hins vegar ekki hafa ákvörðunarvald yfir það hverjir séu vistaðir í einangrun, en það hefur verið gert vegna rannsóknarhagsmuna.

„Það eru nokkrar ábendingar sem eru nýjar, og við höfum ekki fengið frá öðrum, sem við munum taka mið af. Við berum ábyrgð á því að aðbúnaður sé viðunandi og höfum fengið ábendingar er snúa m.a. að því að aðgengi að bókum og DVD-spilurum sé tryggt frá fyrstu mínútu. Við höfum og munum áfram leggja áherslu á það að þessir einstaklingar njóti þeirrar þjónustu sem er í boði, hvort sem það er þjónusta sálfræðinga eða önnur heilbrigðisþjónusta sem kostur er á,“ segir Páll í samtali við mbl.is.

Vill ekki vista andlega veika einstaklinga

Páll bendir á að starfsfólk sem sinnir gæsluvarðhaldseinangrun búi yfir mikilli reynslu í samskiptum við fólk í þessari stöðu. Hann þó telur óeðlilegt að fatlaðir einstaklingar og börn séu sett í einangrun og segir ábótavant að engar upplýsingar séu veittar um þá einstaklinga sem koma í gæsluvarðhald. 

„Við höfum bent á það í mörg ár að það sé óviðunandi að einstaklingar sem glími til að mynda við andlega sjúkdóma, eða séu að öðru leyti það veikir að þeir þurfi að vera vistaðir á sjúkrastofnun, séu vistaðir í fangelsi. Það skiptir ekki máli hvort um er að ræða einangrun, annað gæsluvarðhald eða afplánun,“ segir Páll. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert