Erlendur ferðamaður rakti ferðir þjófs

mbl.is/Ari

Erlendur ferðamaður tilkynnti um þjófnað og fjársvik til lögreglunnar um hálfellefuleytið í gærkvöldi. Hann gat fundið út hvar meintur þjófur væri í borginni með því að fylgjast með færslum á kreditkorti sem hafði verið stolið. 

Rétt áður en lögreglan kom á staðinn ók meintur þjófur á brott á bifreið og náðist ekki en lögreglan telur sig vita hver hann er, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Mundi ekki síðustu fjórar tölurnar

Ökumaður bifreiðar í Hafnarfirði var stöðvaður í akstri og reyndist hann sviptur ökuréttindum. Hann reyndi að villa um fyrir lögreglu með því að gefa upp kennitölu annars manns. Það gekk ekki betur en svo að hann mundi ekki síðustu fjórar tölurnar í kennitölunni og gat ekki framvísað gildum skilríkjum.

Um hálfsexleytið í gær var tilkynnt um árekstur og að ökumaðurinn hafi stungið af en hann náðist ekki. Stuttu síðar var tilkynnt um sömu bifreið þar sem ökumaðurinn hefði ekið á öðru sinni. Hann var talinn vera undir áhrifum vímuefna en svo reyndist ekki vera. Hann var færður undir læknishendur í kjölfarið.

Glataði lyklunum 

Tilkynnt var um innbrot í bifreið um ellefuleytið í gærkvöldi og að meintur innbrotsþjófur væri enn þá á vettvangi. Er lögreglu bar að garði reyndist þetta vera eigandi bifreiðarinnar sem hafði glatað lyklunum af bifreiðinni og þurfi að komast inn í hana með öðrum leiðum.

Um miðnætti var lögreglunni á Vínlandsleið tilkynnt um innbrot í heimahús. Þegar húsráðandi kom heim var búið að brjótast inn til hans og stela verðmætum. Málið er í rannsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert