Segjast harma fréttaflutning um „umsátur“

Tilkynning hefur borist frá lögreglu.
Tilkynning hefur borist frá lögreglu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á Norðurlandi vestra segir að ekki hafi verið um umsátur að ræða á Sauðárkróki í kvöld og kveðst harma fréttaflutning fjölmiðla af slíku.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá embættinu.

Ríkisútvarpið greindi fyrst frá því að umsátur stæði yfir við íbúðarhús á Sauðárkróki og hafði þær fregnir eftir sjónarvottum. 

Í tilkynningu frá lögreglu segir að enginn hafi verið handtekinn vegna málsins og að ekki sé grunur um ætlaða refsiverða háttsemi.

Upplýsingar borist um miðjan dag

Eins og áður hefur verið greint frá sinnti lögreglan á Norðurlandi vestra aðgerðum við íbúðarhúsnæði á Sauðárkróki fyrr í kvöld og var sérsveitin kölluð á vettvang frá Akureyri. 

Um miðjan dag í dag, 8. febrúar, bárust lögreglunni á Norðurlandi vestra upplýsingar sem gáfu tilefni til að lögregla greip til aðgerða á Sauðárkróki til að tryggja allsherjarreglu. Við þær aðgerðir naut embættið aðstoðar embættis ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu,“ er tekið fram í tilkynningunni.

mbl.is