Svandís mótmælti reglubreytingu Jóns um rafbyssur

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra óskað eftir því að bókað yrði í …
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra óskað eftir því að bókað yrði í fundargerð ríkisstjórnar að hún væri „andsnúin ákvörðun dómsmálaráðherra“. Samsett mynd

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra óskaði eftir því að bókað yrði í fundargerð ríkisstjórnar að hún væri andsnúin reglubreytingum dómsmálaráðherra er kveða á um notkun valdbeitingartækja og vopna lögreglu.

Gerði hún athugasemd við það hvernig málið hafði verið unnið og vísaði m.a. til þess að það hafði ekki verið rætt í ríkisstjórn áður en það var kynnt opinberlega.

Þetta kemur fram í svari Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra við fyrirspurn frá Halldóri Auðar Svanssyni, varaþingmanni Pírata, um breytingu á reglum um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna.

Greindi frá ákvörðun í aðsendri grein

Í reglum um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna er að finna heimild ríkislögreglustjóra til að heimila lögreglu notkun rafmagnsvopna í sérstökum tilfellum. Dómsmálaráðherra hefur boðað breytingar á þessu sem fela í sér að heimila lögreglu notkun rafvarnarvopna sem almennt valdbeitingartæki við störf sín.

Halldór Auðar spurði Katrínu m.a. hvenær og með hvaða hætti hún hafi fyrst verið upplýst um nýgerða breytingu á reglum frumvarpsins og hvaða ráðherra eða ráðherrar hefðu sett fyrirvara við málið.

Í svari Katrínar kemur fram að Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hafi greint frá ákvörðun sinni um að hefja undirbúning að því að taka í notkun rafvarnarvopn lögreglumanna, í aðsendri grein í Morgunblaðinu. 

Katrín og Svandís gerðu athugasemdir

Á fundi ríkisstjórnar um tveimur vikum síðar hafi Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, lagt fram og kynnt minnisblað um málið fyrir hönd dómsmálaráðherra, sem var fjarverandi á fundinum.

Í svarinu kemur fram að í umræðu um málið hafi Katrín m.a. gert athugasemd við að málið hefði ekki verið kynnt í ríkisstjórn áður en dómsmálaráðherra skrifaði undir reglugerð um málið og kynnti ákvörðun sína í Morgunblaðinu.

Þá kom fram skýr afstaða forsætisráðherra um að boðaðar breytingar kölluðu á frekari kynningu á málinu, þ.m.t. á nánar tilgreindum útfærsluatriðum, svo sem hvernig geymslu rafvarnarvopna yrði háttað, hvernig tryggt yrði að einungis menntaðir lögreglumenn bæru vopnin o.fl. Var það mat forsætisráðherra að verklagsreglur þyrftu að vera skýrar um notkun vopnanna áður en þau yrðu heimiluð,“ segir í svarinu. 

Þá kemur einnig fram að á umræddum fundi hafi Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra óskað eftir því að  bókað yrði í fundargerð ríkisstjórnar að hún væri „andsnúin ákvörðun dómsmálaráðherra og gerði athugasemd við það hvernig málið hafði verið unnið.“

mbl.is