„Ég svaf alveg í nótt“

Birgir segir sjö flugmenn hafa farið frá Play til Icelandair.
Birgir segir sjö flugmenn hafa farið frá Play til Icelandair. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forstjóri Play segir engar fjöldauppsagnir að eiga sér stað hjá fyrirtækinu og hann hefur ekki áhyggjur af því að flugstjórar og flugmenn Play sækist eftir tímabundnum stöðum hjá Icelandair.

„Við erum með 120 flugmenn í sumar og ég held að það hafi sjö ákveðið að skipta um vinnu og ég svaf alveg í nótt,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play, í samtali við mbl.is.

Vefurinn Túristi.is greindi frá í gær því að á fjórða tug flugmanna og flugstjóra hjá Play hefðu sótt um tímabundnar stöður hjá Icelandair í sumar. Birgir segist hins vegar ekki geta brugðist við því enda hafi hann ekki upplýsingar um það hve margir sendu inn umsókn til Icelandair. 

Heyrir kjaftasögur sem ekkert er til í

„Það liggur fyrir að hjá Icelandair þá vinnurðu minna og færð meira borgað. Við getum boðið fólki fyrr stöðuhækkun upp í flugstjóra, eitthvað sem þú þyrftir að bíða miklu lengur eftir hjá öðrum flugfélögum því þú ert ekki fremstur í röðinni,“ segir Birgir.

Það sé mismunandi hvað hentar hverjum og einum og það sé einstaklingsins að velja.

Hann viðurkennir að hann heyri kjaftasögur um að allir séu að hætta en hann sjái það ekki og það sjáist ekki í rekstrinum.

„Jújú, einstaklingar koma og fara en ekkert sem setur strik í reikninginn hjá okkur,“ segir Birgir. Hann geti ekki haft skoðun á því hvort einstaklingur ákveði að segja upp vinnunni eða fá sér aðra vinnu. „Það er bara eitthvað sem fólk má gera í frjálsu samfélagi.“

Svaraði öðruvísi ef 40 væru að segja upp

Þannig það er ekki áhyggjuefni að flugmenn og flugstjórar frá ykkur sækist í tímabundin störf hjá Icelandair?

„Ef að það væru 40 flugstjórar og flugmenn að segja upp, þá væri ég með annað svar. En það er bara ekki að gerast. Það er skortur á flugmönnum í heiminum þannig ef menn vilja raunverulega fá sér aðra vinnu þá geta þeir alveg gert það. það eru öll flugfélög að ráða flugmenn,“ segir Birgir.

„Jú, það eru held ég sjö sem ég frétti af að eru að fara til Icelandair frá okkur. Mér finnst alltaf leiðinlegt að sjá á eftir fólki en á frjálsum vinnumarkaði þá verður fólk bara að gera það sem það vill. Við erum ekki bara auka samkeppni í flugfargjöldum, við erum líka að auka samkeppni um fólk. Það þýðir að við komum ekki fram fólkið okkar eins og það fái ekkert annað að gera. Við viljum auðvitað reyna að halda í fólkið okkar og ég get ímyndað mér að Icelandair sé að gera það líka. Núna er þetta þannig að það er heilbrigð samkeppni um fólk og ég held að það sé öllum til heilla.“

Enginn skortur á flugmönnum og stjórum

Sem stjórnandi viðurkennir hann hann þó að auðvitað þyki honum leiðinlegt ef bara einn starfsmaður hættir af því hann er ósáttur eða getur fengið betri kjör.

„Við erum að skapa fyrirtæki sem við viljum að fólki líði vel hjá og það sannar sig það eru ekki fjöldauppsagnir, en ef fólk vill hætta þá er það þeirra val og við óskum því góðs gengis og þökkum fyrir samstarfið.“

Aðspurður segir hann engan skort á flugmönnum eða flugstjórum hjá Play.

„Nei, alls ekki. Það er endalaust af flugmönnum og flugstjórum sem vilja koma til okkar. Skandinavísk flugfélög eru almennt að bjóða mjög góð laun á evrópska markaðnum.“

mbl.is