Almannatenglar töpuðu orðsporinu

Almannatenglar hafa verið þekktir fyrir sitt ,,plögg.
Almannatenglar hafa verið þekktir fyrir sitt ,,plögg." Ljósmynd/Colourbox

Svo virðist vera sem starfsheitið almannatengill sé á undanhaldi en þess í stað hafa samskiptaráðgjafar sprottið upp í auknum mæli. Tveir sérfræðingar í almannat..samskiptaráðgjöf segja ástæðuna neikvæð tenging almennings við starfsheitið en einnig hefur starf þeirra sem starfa við miðlun breyst undanfarin ár.

Leikrit, áróður og lygar 

„Í gamla daga var orðið almannatengill tengt við áróður og það skipti ekki máli hvernig umfjöllun þú fékkst, heldur að þú kæmist í fjölmiðla. Þess vegna með leikrit, áróður og lygar. Þessi sýn hefur verið tengd almannatengslum alla tíð,“ segir Andrea Guðmundsdóttir, fagstjóri miðlunar og almannatengsla við háskólann á Bifröst.

Andrea Guðmundsdóttir
Andrea Guðmundsdóttir

Segir hún að í ljósi þessa sé ímyndin sem almenningur hefur á almannatenglum neikvæð. „Samskiptaráðgjafar, samskiptastjórar og upplýsingafulltrúar eru búnir að taka við af starfsheitinu almannatengill," segir Andrea.

En eru þá í lágmarki þau störf þar sem fólk starfar við að hafa áhrif á umræðu og „spinna“?

„Já, þetta er sú umræða sem við viljum vinna gegn. Við viljum byggja á trausti og gagnsæi og orðið almannatengill hefur neikvæða sýn vegna þessa,“ segir Andrea.

Hafa vanrækt eigið vörumerki 

Bryndís Nielsen, samskiptaráðgjafi hjá Athygli, hefur starfað við almannatengsl í vel á annan tug áraHún telur þróun starfsheitisins vera til marks um það að almannatenglar hafi ekki verið nægjanlega duglegir við að rækta eigin garð. „Það kemur í hugann orðatiltækið börn skóarans ganga um berfætt. Þetta er dæmi um slíkt. Við höfum vanrækt okkar eigið vörumerki," segir Bryndís.

Bryndís Nielsen
Bryndís Nielsen

Þá bendir hún á að margir sem starfa við almannatengsl séu fyrrum blaðamenn sem hafa bölvað almannatenglum alla tíð. Það hjálpi starfsheitinu ekki. „Þeir hafa margir ekki viljað láta kalla sig almannatengil. Líklega spilar það sinn þátt í því að sífellt fleiri samskiptafulltrúar eru í starfi en almannatenglum fækkar," segir Bryndís.

 Bíómyndir gefið neikvæða sýn 

„Að hluta til er þetta tengt við hugtakið PR og þá sér fólk fyrir sér bandaríska spunameistara í bíómyndum sem ljúga og plotta. Það er samt ekki alveg lýsandi fyrir hlutverk langflestra í þessu starfi,“ segir Bryndís.

Í dag snúist starf margra um að koma réttum upplýsingum á framfæri á mannamáli. Mikilvægt sé að sannleikurinn sé hafður að leiðarljósi því annars sé hætt við því að þú fáir það fljótt í bakið. „Það er regla númer 1,2 og 3 að fara með rétt mál. Það borgar sig aldrei að vera í einhverju lygaplotti,“ segir Bryndís.

Þá bendir hún á að stofnanir t.a.m. hafi mikla skyldu um upplýsingagjöf og stór hluti starfsins snúist um það. „Þegar ég var að byrja snérist þetta að miklu leyti um að skrifa fréttatilkynningar og halda blaðamannafundi. Núna snýst þetta hins vegar mikið um að veita stjórnendum ráðgjöf varðandi samskipti við önnur fyrirtæki eða fjölmiðla t.a.m,“ segir Bryndís.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert