„Afleiðing þess að farið var rangt af stað“

Einar Oddur Sigurðsson, verjandi Ísidórs, og Ísidór með hulið andlit …
Einar Oddur Sigurðsson, verjandi Ísidórs, og Ísidór með hulið andlit við þingfestingu málsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einar Oddur Sigurðsson, verjandi Ísidórs Nathanssonar sem ákærður var fyrir hlutdeild í tilraun til hryðjuverka, segir lögregluyfirvöld hafa farið rangt af stað í upphafi hryðjuverkamálsins. Niðurstaða Landsréttar um að vísa ákæru­liðum eitt og tvö frá, hafi ekki komið á óvart, en þeir vísa að brot­um er snúa að und­ir­bún­ingi hryðju­verka. 

„Úrskurður héraðsdóms var mjög ítarlegur og vel saminn þannig að við höfðum ákveðnar væntingar um að hann yrði staðfestur,“ segir Einar í samtali við mbl.is.

Hann lítur á niðurstöðuna sem fullnaðarsigur að því er varðar hryðjuverkaþátt málsins.

„Ég held að það sé ekki hægt að túlka þetta öðruvísi. Fræðilega séð er hægt að gefa út nýja ákæru en eftir allt sem hefur gengið á þá held ég að ákæruvaldið leggi árar í bát og láti gott heita. Ég á ekki von á því að það verði frekari eftirmálar af þessum þætti málsins.“

Ekki ástæða til að gefa út ákæru

Í úrskurði Landsréttar kemur fram að miklir ágallar séu á tilgreiningu hinnar ætluðu refsiverðu háttsemi þeirra Sindra Snæs Birgissonar, sem ákærður var fyrir tilraun til hryðjuverka, og Ísidórs.

Er þetta áfellisdómur á vinnubrögð ákæruvaldsins?

„Ákæruvaldið er náttúrulega með efniviðinn, sem er rannsóknin, og ég held að þetta sé afleiðing þess að farið var rangt af stað í upphafi. Það er stefnt að ákveðnu markmiði með þessari rannsókn og það endar svona. Dómstólarnir hafa einhvern veginn séð í gegnum það að það var í raun ekki ástæða til að gefa út ákæru fyrir þennan þátt málsins. Þess vegna er ákæran óskýr því það er erfitt að lýsa því hvaða háttsemi þeir eiga að hafa viðhaft,“ segir Einar.

„Það verða aðrir að meta það hvort þetta sé áfellisdómur fyrir ákæruvaldið en ég held að þetta verði ábyggilega grandskoðað á þar til bærum stöðum.“

Stór orð viðhöfð sem litar allt ferlið

„Í upphafi þegar þessar grunsemdir vöknuðu var blásið til blaðamannafundar og stór orð viðhöfð sem litar allt ferlið sem kemur í kjölfarið. Strax í upphafi var lögreglan búin að ákveða að þeir hafi ætlað að fremja hryðjuverk og byrja algjörlega á öfugum enda í stað þess að bíða og sjá hvað rannsóknin leiðir í ljós.

Það er það sem hefur verið helsti gagnrýnispunkturinn í þessu, ekki bara hjá okkur verjendum heldur mörgum öðrum sem hafa skoðað málið utan frá,“ segir Einar.

Hann segir að niðurstaðan sé gríðarlegur léttir fyrir sinn umbjóðanda og gerir ráð fyrir því að málinu muni ljúka með skjótum hætti, en frávísun Landsréttar varðar ekki seinni liði ákærunnar er snúa að vopnalagabroti og stórfelldum vopnalagabrotum, ásamt fíkniefnabroti.

mbl.is