Veikindi af völdum myglusvepps mögulega vanskráð

Óvissa er með hvernig leiðbeiningar heilbrigðisstarfsfólk hefur fengið um skráningu …
Óvissa er með hvernig leiðbeiningar heilbrigðisstarfsfólk hefur fengið um skráningu mygluveikinda. Ljósmynd/Colourbox

Á árunum 2012 til 2022 voru 462 viðtöl á heilsugæslustöðvum hér á landi þar sem sjúkdómsgreiningin myglusveppasýki var skráð í sjúkraskrá einstaklings. Ekki er þó víst að þessar tölur gefi rétta mynd af umfangi slíkra veikinda, þar sem möguleiki er á að um vanskráningu sé að ræða.

Fjöldi viðtala hefur hins vegar farið stigvaxandi með hverju árinu. Árin 2014 og 2015 voru engin slík viðtöl skráð en árið 2022 voru viðtölin 133.

Á Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri voru 34 komur á árunum 2010 til 2022, þar sem sama sjúkdómsgreining var skráð. Þá voru 7 einstaklingar lagðir inn í 8 skipti á árunum 2005 til 2022, vegna veikinda af völdum myglusveppasýki.

Óvissa með leiðbeiningar til starfsfólks

Þetta kemur fram í svari Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, um hve mörg tilvik væru skráð þar sem fullorðnir og börn hafa veikst vegna rakaskemmda, myglu og ýmiss konar byggingargalla.

Hugsanlegt er myglusveppasýki eða veikindi af völdum myglu og rakaskemmda séu vanskráð í heilbrigðiskerfinu þar sem óvíst er hve miklar leiðbeiningar heilbrigðisstarfsfólk hefur fengið um notkun svokallaðs lykils, sem upplýsingarnar eru skráðar á. Ekki er því ljóst hve þekjandi skráningin er, að segir í svarinu.

Skráðar upplýsingar eru ekki flokkaðar eftir aldri eða öðrum upplýsingum um þá einstaklinga.

mbl.is