Mikilvægt að vera við öllu búinn á Íslandi

Ferðafélag Íslands brýnir fyrir fólki að kynna sér öryggisatriði áður …
Ferðafélag Íslands brýnir fyrir fólki að kynna sér öryggisatriði áður en haldið er í ferðir. Ljósmynd/Þorvarður Árnason

Forseti Ferðafélags Íslands telur mikilvægt að fólk hafi varann á í vetrarferðamennskunni og undirbúi ferðir sínar vel, enda geti veður á Íslandi breyst á svipstundu.

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar fór í þrjú útköll í gær vegna slysa að Langjökli og á Dalvík. Sá fjöldi útkalla á einum degi telst ekki algengur, en margir voru á ferli í góða veðrinu í gær.

„Það þarf alltaf að hafa varann á í ferðalögum almennt, hvort sem þau eru að vetri eða sumri til,“ segir Ólöf Kristín Sívertsen, forseti Ferðafélags Íslands, í samtali við mbl.is.

Ólöf Kristín Sívertsen er forseti Ferðafélags Íslands.
Ólöf Kristín Sívertsen er forseti Ferðafélags Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Fólk ekki alltaf nógu vel búið

Hún segir að það sé fyrst og fremst íslenski veturinn og aðstæður á hverjum stað sem veldur slysum í vetrarferðamennskunni. Fólk þurfi hins vegar að meta aðstæður og vera vel búið.

„Stundum er það raunin að fólk er ekki nægilega vel undirbúið og ekki að meta aðstæður sem skyldi. Það er mjög mikilvægt að vera með réttan búnað.“

Á heimasíðu Ferðafélags Íslands er að finna leiðbeiningar og öryggisatriði er varða vetrarferðamennsku.

„Við hvetjum fólk til að kynna sér aðstæður og það er alltaf betra að vera með meiri búnað heldur en minni og gera ráð fyrir öllu. Eins og við vitum á Íslandi að þótt sól og blíða sé einhvers staðar þá getur veður breyst á svipstundu, þannig að maður þarf að vera við öllu búinn.

Þú getur þurft að vera með sérstakan búnað að vetri til. Þú þarft að kynna þér mjög vel hvert þú ert að fara, hvernig gönguleiðum eða akstursleiðum er háttað og eins líka að skilja eftir ferðaplan,“ segir Ólöf og vísar til vefsíðunnar safetravel.is

Áskorun að miðla upplýsingum

Þá bendir Ólöf á mikilvægi þess að vísa erlendum ferðamönnum á leiðbeiningar er snúa að öryggi í ferðalögum.

„Það er mjög mikilvægt að við vekjum athygli þeirra á þessu og vísum þeim á þessar síður. Þar eru einnig allar upplýsingar á ensku. Það er mjög mikilvægt að við reynum að koma þessu á framfæri á sem bestan hátt við sem flesta,“ segir hún.

„Við reynum að halda þessum upplýsingum á lofti en við getum alltaf gert betur. Það getur verið mjög mikil áskorun að koma svona upplýsingum á framfæri.“

Ólöf segist að lokum vona að allir sem ferðast um landið geti notið þess og komist heilir heim.

„Við hjá Ferðafélagi Íslands hvetjum að sjálfsögðu til ferðalaga um landið en brýnum um leið fyrir fólki að kynna sér öryggisatriði.“

mbl.is