Viðbragðsaðilar gista í varðskipinu Þór í nótt

Varðskipið Þór dró gamla varðskipið Maríu Júlíu inn til Akureyrar …
Varðskipið Þór dró gamla varðskipið Maríu Júlíu inn til Akureyrar í morgun, og fór að því loknu beint af stað austur á firði til að vera til taks vegna snjóflóðanna í Neskaupsstað og yfirvofandi flóðahættu á Austfjörðum. Mbl.is/Þorgeir Baldursson

Varðskipið Þór er væntanlegt til Seyðisfjarðar klukkan 21.30 í kvöld að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar.

„Þaðan verður farið með vistir og viðbragðsaðila, bæði í Neskaupstað og á Eskifjörð. Sex viðbragðsaðilar fara út á hvorum stað,“ segir Ásgeir.

„Gert er ráð fyrir að 20 manns gisti í varðskipinu Þór í nótt. Þetta eru viðbragðsaðilar sem eru á staðnum.“

María Júlía komst til Akureyrar

Ásgeir segir að varðskipið Þór hafi verið að draga hið sögufræga varðskip Maríu Júlíu frá Ísafirði og að það hafi verið að skila því af sér til Akureyrar í morgun þegar beiðni um aðstoð barst vegna snjóflóðanna.

Varðskipinu var þá siglt beint frá Akureyri austur á firði, og kemur það í höfn á Seyðisfirði klukkan hálf tíu í kvöld, eins og fyrr segir.

mbl.is