Ein þyrla og ein áhöfn til taks hjá Gæslunni

TF-EIR á flugi.
TF-EIR á flugi.

Aðeins ein þyrla hefur verið til taks hjá Landhelgisgæslunni undanfarna daga sökum þess að tvær af þremur þyrlum hafa verið í viðhaldi. Sömuleiðis hefur einungis ein áhöfn verið til taks undanfarið í stað tveggja eins og miðað er við.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir að þessi staða komi upp varðandi þyrlurnar einhverja daga á ári hverju.

Tvær þyrlur 80% ársins

„Með þriggja þyrlu kerfið þá er hugsunin að stærstan hluta ársins getum við verið með tvær tilbúnar þyrlur. Það koma vissulega dagar þar sem tvær eru í viðhaldi og ein í notkun og undanfarna daga hefur það verið þannig,“ greinir Ásgeir frá.

Hann bendir á að tvær þyrlur hafi verið til taks um 80% síðasta árs. „Við kappkostum við að hafa sem flestar til taks flesta daga ársins.“

Ásgeir Erlendsson.
Ásgeir Erlendsson.

Frá Egilsstöðum að Fagrafelli

Í nótt var þyrlan TF-EIR kölluð austur frá Egilsstöðum suður að Fagrafelli vegna tveggja göngumanna sem voru vandræðum.

Ásgeir segir að ákveðið hafi verið að hafa þyrluna til taks á Egilsstöðum vegna snjóflóðahættu á Austfjörðum. Þar gisti áhöfnin í nótt en fór í útkallið á Fagrafell klukkan fjögur í nótt. Þaðan voru göngumennirnir fluttir á Landspítalann og í ljósi stöðunnar fyrir austan var ákveðið að þyrlan myndi vera í viðbragðsstöðu í Reykjavík.

Þjálfun í flughermum

Hvað áhafnirnar á þyrlunum varðar segir Ásgeir að 65% ársins sé Gæslan með tvær áhafnir til taks hverju sinni, en þær eru sex í heildina. Vegna þjálfunar í flughermum hafi aftur á móti aðeins ein verið til taks undanfarna daga.

Hann bendir þó á að þegar neyðartilvik komi upp hafi menn verið tilbúnir til að stökkva til úr sínum fríum og á vaktina.

„Við kappkostum við að vera stærstan hluta ársins með tvær þyrlur og tvær áhafnir til taks,“ segir hann.

mbl.is