Aðalmunurinn að losna við rigninguna

Krapaflóðahætta verður til staðar út laugardag á Austfjörðum.
Krapaflóðahætta verður til staðar út laugardag á Austfjörðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á vakt hjá Veðurstofu Íslands, segir snjóflóðahættu litla þó mörg snjóflóð hafa fallið síðasta sólahringinn á Austfjörðum.

Hins vegar verði líklega krapaflóðahættan ennþá til staðar út morgundaginn. Það komi betur í ljós í birtingu þegar hægt verður að sjá hvað er að gerast í lækjarfarvegum.

Óli segir að það muni stytta upp fljótlega eftir hádegi á Austfjörðum á morgun, laugardag.

„Þá verður þetta allt mun stöðugra þó það verði ágætlega milt þarna áfram. Aðal munurinn er að losna við rigninguna þannig að það sé ekki eins hröð leysing. Ef þetta fær að sjatna í rólegheitum þá veldur þetta nú sjaldnast miklum vandræðum,“ segir Óli.

„Ætli næsti sólahringurinn verði ekki snúnastur, síðan verðum við komin á þægilegri stað líklega.“

Vettvangsstjórnir í hvíld

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að allt virðist vera með kyrrum kjörum en vel á áttunda tug björgunarsveitarmanna séu búnir að vera til taks á Austfjörðum frá því þeir voru fyrst kallaðir út. 

Hann segir rólegt hafa verið hjá björgunarsveitarfólki í dag en smærri flóð hafi fallið í dag á teljandi vandræða. 

Hann segir að vettvangsstjórnir séu farnar í hvíld en aðgerðarstjórn á Austfjörðum sé enn virk.

mbl.is