Segir erfðaskattinn sanngjarnastan allra skatta

Helga Vala Helgadóttir.
Helga Vala Helgadóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta eru þær skatttekjur sem taldar eru sanngjarnastar af öllum. Meira að segja hægrisinnuðustu hagfræðingar tala á þeim nótum að þetta sé hinn sanngjarnasti skattur. Ég sé ekki af hverju við ættum að hrófla við honum,“ segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar. 

Gagnrýnir hún þar með hugmyndir Guðrúnar Hafsteinsdóttur, Vilhjálms Árnasonar og Ásmundar Friðrikssonar um að tíu fyrstu milljónir erfðafjár frá hvoru foreldri verði gerðar skattfrjálsar. 

Hún bendir á að ekki sé verið að skattleggja þann sem vann fyrir hlutunum með þessu. Það sé hins vegar gert þegar kemur að lífeyri. Heldur væri vert að skoða þann hluta skattlagningar. 

Veltir fyrir sér veruleika þingmanna

Hún segir að í greinargerðinni sé talað um að af 100 milljón krónum verði 90 af 100 milljónum skattlagðar eftir sem áður. „Maður veltir því fyrir sér í hvaða veruleika þeir þingmenn búa sem birta þessar tölur sem dæmi,“ segir Helga Vala.

Helga segir að fólk sem hafi ekki til hnífs og skeiðar þurfi að þola miklar skerðingar. „Ég tala fyrir jöfnuði og í þessum aðgerðum er verið að tala um að minnka tekjur ríkissjóðs en auka þess í stað eignir þeirra sem eru ríkir," segir Helga Vala.

En eru þeir sem eiga ekki til hnífs og skeiðar betur staddir þó þessi skattur verði ekki tekinn af?

„Já, skatturinn fer inn í samneysluna og það er misskilningur að það sé betra að hinir ríku borgi lægri skatta, því þá verði hinir ríku ríkari. Við erum að rukka þá sem eru fátækir um umtalsverða fjármuni til þess að nýta sér hina ýmsu velferðarþjónustu,“ segir Helga Vala.

Bjó ekki við svona munað 

En er sanngjarnt að tala um að þetta nýtist aðeins þeim ríku? Hvað með millistéttina sem hefur náð að safna sér einhverju í gegnum heila starfsævi?

„Nú myndi ég segja að ég væri millistétt. Ég bjó ekki við þær aðstæður að fá svona fjármuni við íbúðarkaup eða framfærslu. Börnin mín fjögur njóta heldur ekki þeirra kjara. Þetta er því auðæfin erfast áfram. Við þurfum ekkert að hafa áhyggjur af þeim hluta þjóðarinnar sem á mikla peninga. Ég held að við ættum að beina sjónum okkar að þeim hópi sem á í virkilegum vanda því hann fer sístækkandi,“ segir Helga Vala.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert