„Sýnir að menn hafi ekki haft góða samvisku“

Hræ fjárstofnsins á Syðri-Urriðaá, sem urðuð voru í síðustu viku …
Hræ fjárstofnsins á Syðri-Urriðaá, sem urðuð voru í síðustu viku eftir að stofninn var skorinn niður í kjölfar riðusmits, voru sett niður í landi Bessastaða á Heggstaðanesi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hræ fjárstofnsins á Syðri-Urriðaá, sem urðuð voru í síðustu viku eftir að stofninn var skorinn niður í kjölfar riðusmits, voru sett niður í landi Bessastaða á Heggstaðanesi.

Þetta segir Sigurður Ingvi Björnsson, sauðfjárbóndi á Bálkastöðum, en hann hefur sent sveitarstjórn Húnaþings vestra bréf þar sem hann fordæmir aðgerðina. Jörð Sigurðar er næsta jörð við Bessastaði.

Fordæmir alla sem stóðu að ákvörðuninni

Sigurður segir alla aðila hafa skautað framhjá því að hann fengi að vita hvað til stæði.

„Það sýnir svart á hvítu að menn hafi ekki haft góða samvisku. Ég fordæmi alla þá aðila sem stóðu að þessari ákvörðun að grafa féð steinsnar frá veginum sem liggur út í Bálkastaði,“ segir bóndinn á Bálkastöðum í samtali við mbl.is og hyggst hann kæra ákvörðunina.

Fer fram á afsagnir

Sigurður segir engu skipta þótt gröfin sé í Bessastaðalandi og segir það vítaverða ákvörðun og gáleysi allra ábyrgðaraðila að dreifa smituðum hræjum um sveitirnar.

„Það er bannað lögum samkvæmt að grafa dýrahræ á lögbýlum. Matvælastofnun, Umhverfisstofnun og sveitarstjórn Húnaþings Vestra náðu að klúðra málinu og eru vægast sagt á mjög gráu svæði. Virða má ábúendur á Bessastöðum þeim til vorkunnar að þau eru siðferðislega vanþroskaðar verur.

Það fannst víst ein smituð kind sem kom frá Bergsstöðum en hún var gefin á milli bæja. Það voru allir sammála um að ekki var hægt að dæma alla hjörðina smitaða en þó var það niðurstaða Matvælastofnunar.

Ég fer fram á að allir þeir aðilar sem stóðu að þessum ákvörðunum segi af sér ásamt ráðherra en það er ráðherra sem gefur heimild til að veita tímabundna undanþágu um urðunarstað samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs,“ segir hann.

Aðgerðin kostaði skildinginn

Sigurður segir að ætla megi að aðgerðin hafi kostað skildinginn og að miklir fjármunir hafi farið í að flytja hræin fram og til baka um sveitina eftir að eigendur jarða og leiguliðar, sem næst lágu jörðum þar sem grafa átti féð, stöðvuðu það að minnsta kosti þrisvar sinnum.

„Þessi þrenn stjórnvöld sýna með vissu að þessi aðgerð um niðurskurð fjár frá Syðri-Urriðaá var tekin með geðþóttaákvörðunum heilt yfir og nánast ekkert faglega að því staðið, eins og Matvælastofnun hefur orðið uppvís að í öðrum málum sem rekið hafa inn á borð til þeirra,“ segir hann ómyrkur í máli.

„Risaeðla sem bruðlar með fé“

Sigurður segir að Matvælastofnun forgangsraði algjörlega vitlaust þegar kemur að forvörnum vegna riðuveiki og sýni nýjustu dæmi það algjörlega.

„Að vissu leyti er þessi stofnun risaeðla sem sinnir ekki hlutverki sínu og bruðlar með fé. Þar sem Daníel Haraldsson, nýráðinn héraðsdýralæknir Norðvesturumdæmis, var vant við látinn þegar ráðist var í þessar aðgerðir, stóð Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir vaktina með þessu eindæma klúðri þar sem verið var að flýta sér einum of mikið.“

Frysting hefði aukið flækjustig

Telur Sigurður að ákvarðanir sem þessar gefi röng skilaboð til bænda varðandi förgun á sýktum dýrahræjum og spyr af hverju hræin voru ekki fryst í frystigámum þangað til að Kalka væri komin í lag.

Kalka sorpeyðingarstöð er eina stöðin hér á landi sem getur tekið við dýrahræjum og brennt þau. Reglubundið viðhald hafði verið skipulagt á brennsluofni Kölku sem var svo frestað vegna brennslu á hræjunum frá Bergsstöðum.

Ingþór Karlsson, stöðvarstóri Kölku, segir enn um það bil viku í að hægt verði að nota brennsluofn Kölku. Hann segir að ekki hafi verið hægt að fresta viðhaldinu á ný eftir að riðusmit greindist á Syðri-Urriðaá.

Hann segir þó að vel hefði verið hægt að frysta hræin en að það hefði aukið flækjustig framkvæmdarinnar verulega. Marga frystigáma hefði þurft til verksins því það gangi ekki að stafla hræjunum í gámana. Lausfrysting skrokkanna hefði verið eina leiðin til að tryggja að hræin yrðu færð óskemmd til brennslu.

Æskilegast að moka þetta upp

„Æskilegast er að moka þetta upp og hreinsa en ég sé það nú ekki fyrir mér. Skömm þeirra sem stóðu að málum verður ævarandi. Verði enginn árangur af kærumálum verður settur minningarkross hér í landi Bálkastaða þar sem verður bein sjónhending að gröfinni til að halda þessu á lofti um ókomna tíð,“ segir Sigurður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert