Áfram kennt í MS þrátt fyrir myglu

Kennsla mun áfram fara fram í húsnæði MS í haust …
Kennsla mun áfram fara fram í húsnæði MS í haust samkvæmt tilkynningu skólans. Ljósmynd/Stjórnarráðið

„Vegna umfjöllunar fjölmiðla í dag vill starfsfólk Menntaskólans við Sund koma því á framfæri að kennsla fer fram í húsnæði skólans við Gnoðarvog á komandi skólaári.“

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Menntaskólans við Sund.

Ekki áhyggjuefni fyrir núverandi nemendur

Bygging skólans hefur orðið fyrir talsverðum rakaskemmdum á fyrstu og þriðju hæð hússins og hluta húsnæðisins verið lokað þar af leiðandi.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði í dag að fram hefði komið á fundi fjárlaganefndar að loka þyrfti byggingunni í þrjú ár.

Í tilkynningu skólans er þó reynt að fullvissa nemendur um að kennsla haldi áfram í MS. Segir þar að viðgerðir hafi til þessa farið fram á milli anna og muni halda því áfram.

Ljóst sé aftur á móti að ráðast þurfi í víðtækari endurbætur á eldra húsnæði skólans í framtíðinni en að núverandi nemendur þurfi ekki að hafa áhyggjur af slíku. 

Hvetja nýnema til að skrá sig

„Eins og við höfum fullvissað nemendur okkar um í dag og undanfarna daga þá er ekkert að óttast fyrir núverandi og verðandi nemendur okkar,“ segir í tilkynningunni.

Einnig er ítrekað að sameining MS og Kvennaskólans í Reykjavík, sem nefnd hefur verið sem möguleiki, muni hvorki hafa áhrif á skipulag náms nemenda við skólann né nýnema sem innritast í vor. Eru nýnemar hvattir til að skrá sig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert