Samþykktu sérstaka Reykjavíkuryfirlýsingu

Yfirlýsingunni er ætlað að starf Evrópuráðsins hvað varðar tengsl mannréttinda …
Yfirlýsingunni er ætlað að starf Evrópuráðsins hvað varðar tengsl mannréttinda og umhverfis. mbl.is/Kristinn Magnusson

Leiðtogar aðildarríkja Evrópuráðsins samþykktu Reykjavíkuryfirlýsinguna á fundi sínum í Reykjavík í dag og settu á stofn alþjóðlega tjónaskrá fyrir Úkraínu. Stuðningur við Úkraínu, ályktun í þágu úkraínskra barna, og skuldbinding ríkjanna við mannréttindi, lýðræði og réttarríkið voru megináherslur yfirlýsingarinnar.

Þá skuldbinda aðildarríkin sig með yfirlýsingunni til að framfylgja að fullu ákvörðunum Mannréttindadómstóls Evrópu. Leiðtogafundinum er formlega lokið og hafa Lettar nú tekið við formennsku í Evrópuráðinu.

Málefni Úkraínu ofarlega á baugi

Leiðtogafundi Evrópuráðsins lauk í Hörpu síðdegis en hann markar lok formennsku Íslands í ráðinu. Dagurinn hófst á almennum umræðum þar sem fulltrúar ríkjanna fluttu ávörp og sammæltust um skuldbindingar sínar til framtíðar.

Málefni Úkraínu voru þar ofarlega á baugi, meðal annars var sérstök ályktun í þágu úkraínskra barna afgreidd en talið er að Rússar hafi numið fjölda barna á brott frá heimilum sínum á hernumdum svæðum. Leiðtogarnir létu í ljós eindreginn stuðning við tillögur Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu, um réttlátan frið og ræddu um stofnun sérstaks dómstóls vegna stríðsglæpa í Úkraínu.

Reykjavíkuryfirlýsing og Reykjavíkurferli

Leiðtogarnir skuldbundu sig jafnframt til að vinna gegn því bakslagi sem orðið hefur í lýðræði í heiminum með því hafa að leiðarljósi meginreglur um lýðræði sem afgreiddar voru á fundinum og kenndar eru við Reykjavik (e. Reykjavík Principles of Democracy). 

Reykjavíkuryfirlýsingin (The Reykjavík Declaration) leggur jafnframt áherslu á að Evrópuráðið efli starf sitt hvað varðar tengsl mannréttinda og umhverfis (e. Reykjavík Process). Þá felur lokayfirlýsingin í sér ályktun sem undirstrikar eftirfylgni með dómum Mannréttindadómstóls Evrópu. 

„Fundurinn sendir skýr skilaboð um að efla þurfi lýðræði með markvissum hætti og vinna gegn því bakslagi sem orðið hefur á undanförnum árum. Á fundinum var einnig samþykkt að hefja svokallað Reykjavíkurferli í þágu umhverfis og mannréttinda sem er mikilvægt skref til þess að festa réttinn til heilnæms umhverfis í sessi. Síðast en ekki síst er niðurstaða fundarins afgerandi samstaða með Úkraínu,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Stofnsetning tjónaskrárinnar

Fundurinn markaði jafnframt stofnsetningu sérstakrar skrár vegna þess tjóns sem innrás Rússlands hefur valdið Úkraínu. Til að marka þennan áfanga komu saman í Hörpu í morgun þau Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og forseti ráðherranefndar Evrópuráðsins, Denis Shmyhal, forsætisráðherra Úkraínu, Denys Maliuska, dómsmálaráðherra Úkraínu, Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, og Marija Pejčinović Burić, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra undirritaði svo yfirlýsingu um tjónaskrána fyrir Íslands hönd í kjölfarið. Alls hafa 45 aðildarríki og áheyrnaraðilar skrifað undir.

„Tjónaskráin er áþreifanlegt framlag leiðtoga aðildarríkja Evrópuráðsins í þágu Úkraínu og með henni höfum við stigið þýðingarmikið skref til að tryggja ábyrgðarskyldu vegna brota Rússlandshers í Úkraínu. Þessi stund markar því tímamót sem við höfum unnið markvisst að með Evrópuráðinu og mörgum öðrum þjóðum og ég er mjög stolt yfir að þau eigi sér stað hér í Reykjavík,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

mbl.is