Efnahagsmálin rædd á Alþingi í næstu viku

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, féllst á kröfu Kristrúnar Frostadóttur um að leggja efnahagsmál á dagskrá þingsins sem fyrst. Hann mun því skipuleggja umræðu á næsta þingfundardegi, sem gæti þá verið næsta þriðjudag.

Kristrún telur slíka umræðu brýna þar sem þinghlé nálgast og verðbólgan mælist í 9,9%, auk þess þar sem stýrivextir eru orðnir 8,75% eftir að hafa verið hækkaðir í dag um 1,2 prósentustig.

„Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur fram farið fram á við forseta Alþingis að það verði sett á dagskrá þingfundar sem fyrst umræða um efnahagsmál,“ segir hún úr ræðustól.

Í svari forseta Alþingis kemur fram að „forseti hyggst bregðast við því með því að skipuleggja slíka umræðu á næsta þingfundardegi, sem gæti þá verið næsta þriðjudag, og mun eiga samráð við þingflokksformenn um fyrirkomulag þeirrar umræðu.“

mbl.is