Ekki frekari stuðningur vegna kjarasamninga

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags og vinnumarkaðsráðherra, í Ráðherrabústaðnum.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags og vinnumarkaðsráðherra, í Ráðherrabústaðnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segir að ekki hafi komið til tals að ríkisstjórn eða Alþingi stígi inn í kjaradeilu BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Hann segir ábyrgð samningsaðila mikla og að hann voni að deilan leysist sem fyrst.

Ábyrgð aðila vinnumarkaðarins

„Ég ítreka mikilvægi þess að það er samningsaðila að leysa málin sín á milli. Það er mjög mikilvægt að hægt sé að útkljá ágreiningsefni við samningaborðið,“ segir Guðmundur Ingi í samtali við mbl.is.

Hann segist alltaf hafa áhyggjur af því þegar kjaradeilur séu komnar í hnút en að deilan sé á þeim stað að aðilar séu að reyna að ná saman. „Þar á hún að vera því það er ábyrgð aðila vinnumarkaðarins að ná saman um kjarasamninga.“

„Búið að stíga þau skref sem verða stigin“

Ráðherra segir ríkið hafa farið í mótvægisaðgerðir um síðustu áramót sem voru ætlaðar til að liðka fyrir samningum bæði á almennum og opinberum vinumarkaði. Nefnir hann í því sambandi hækkun á húsaleigubótum um 13-14%, Hækkanir á barnabótum sem einnig voru látnar ná til fleira fólks.

„Þannig að ríkið er búið að stíga þau skref sem verða stigin í þessari kjaralotu hvað varðar stuðning sinn í tengslum við gerð kjarasamninga.“

mbl.is