Hiti fór ekki undir fjórtan gráður í nótt

Hitastigið á Akureyri var minnst fjórtán stig í nótt.
Hitastigið á Akureyri var minnst fjórtán stig í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hitastigið fór ekki niður fyrir fjórtán stig í nótt í Ásbyrgi og á Akureyri og hélst yfir tíu stigum víða á Norðurlandi og Austurlandi. Þetta staðfestir Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. 

Að sögn Birgis er það hagstæður vindur sem veldur þessu en hann bendir á að ef það væri dúnalogn á svæðinu myndi kólna hratt. Í nótt voru aftur á móti kjöraðstæður til að viðhalda hita en vindhraði á svæðinu var um fimm metrar á sekúndu. 

„Það er í rauninni það hlýtt loft að um leið og það er einhver vindur þá helst hitinn þetta hár. Þetta voru svona þrír til fimm metrar á sekúndu í nótt og það hefur verið nóg til að halda loftinu blönduðu,“ segir hann.

Birgir tekur fram að þótt að þetta teljist hlý nótt þá er ekki um óeðlilegan viðburð að ræða. Á þetta til að gerast nokkru sinnum á hverju sumri. 

„Það þarf ekki óskaplega sérstakar aðstæður í þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert