BSRB stefnir Snæfellsbæ fyrir verkfallsbrot

Elísabet S. Ólafsdóttir aðstoðarsáttasemjari og Sonja Ýr Þor­bergs­dótt­ir, formaður BSRB, …
Elísabet S. Ólafsdóttir aðstoðarsáttasemjari og Sonja Ýr Þor­bergs­dótt­ir, formaður BSRB, í Karphúsinu í síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

BSRB hefur ákveðið að stefna Snæfellsbæ fyrir Félagsdóm þar sem bandalagið telur að ítrekuð verkfallsbrot hafi verið framin á leikskólum sveitarfélagsins.

Í tilkynningu frá BSRB segir að verkfallsbrotin hafi ítrekað verið framin frá upphafi vikunnar þrátt fyrir kröfu Kjalar, aðildarfélags BSRB, um að látið verði tafarlaust af háttseminni. 

Kjölur sendi á miðvikudag erindi þess efnis til bæjarstjóra Snæfellsbæjar, auk afrits til Sambands íslenskra sveitarfélaga. Erindinu hafi hvorki verið svarað né heldur látið af verkfallsbrotunum.

Börn færð milli deilda og leikskóla

Fram kemur að venjubundnu skipulagi starfsemi leikskólanna hafi mikið verið breytt til að draga úr áhrifum verkfallsins, til að mynda með tilfærslu barna milli deilda og jafnvel leikskóla.

Þá hafi annað starfsfólk sem ekki hefur heimild til ítrekað gengið í störf verkfallsfólks. Aðstoðarleikskólastjóri og sérkennslustjóri hafi unnið inni á deildum og leyst þannig af starfsfólk í verkfalli.

BSRB telur háttsemina óboðlega og þykir miður að hvorki bæjaryfirvöldum Snæfellsbæjar, né Sambandi íslenskra sveitarfélaga, hafi þótt tilefni til að svara erindinu eða gera tilraun til að stöðva brotin.

mbl.is