Björguðu ferðamanni sem fór út af gönguleið

Björgunarsveitir fundu manninn á ellefta tímanum í kvöld.
Björgunarsveitir fundu manninn á ellefta tímanum í kvöld. Ljósmynd/Aðsend

Björgunarsveitir frá Vík í Mýrdal og Álftaveri björguðu erlendum ferðamanni sem var í sjálfheldu í Þakgili í kvöld. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörg.

Fór út af gönguleið

Í tilkynningunni segir að erlendi ferðamaðurinn hafði verið á göngu inn af Þakgili, undir Mýrdalsjökli, áður en hann fór út af gönguleið og var við það kominn í sjálfheldu. Treysti hann sér þá ekki til að halda áfram og hringdi í Neyðarlínuna klukkan 20.30. 

Nokkurn tíma tók að koma björgunarfólki inn í Þakgil um hægfarinn veg. Björgunarfólk fór svo inn á gönguleiðina úr tveimur áttum, en staðsetning mannsins var ekki nákvæmlega vituð,“ segir í tilkynningunni.

Maðurinn fannst að lokum á ellefta tímanum í kvöld og var hann orðinn nokkuð kaldur og búinn að koma sér fyrir þar sem hann var vel skorðaður af. Eins og stendur aðstoðar björgunarfólk manninn til baka eftir gönguleiðinni inn í Þakgil.

Í grennd við Þakgil.
Í grennd við Þakgil. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is