Launahækkun flestra ráðamanna undir „þakinu“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist ekki sjá tilgang með því að fresta launahækkunum ráðamanna sem taka að öllu óbreyttu gildi næstu mánaðamót. 

Hún telur eðlilegra að minnka þá hækkun sem lögin boðuðu og tekur fram að hækkunin nái til hóps ráðamanna, ekki eingöngu kjörinna fulltrúa þó þeir séu vissulega mest í sviðsljósinu.

Hækkun nemi 2,5%

Samkvæmt útreikningum Hagstofunnar áttu laun ráðamanna að hækka um 6% en í aðgerðum ríkisstjórnarinnar gegn verðbólgu sem kynntar voru í gær kemur fram að lögum verði breytt þannig að hækkunin nemi í stað 2,5%, til að skapa ekki aukinn verðbólguþrýsting.

Katrín segir ríkisstjórnina senda skýr skilaboð með skerðingu launhækkunarinnar.

„Við sjáum í raun og veru ekki tilgang með því að fresta hækkunum á þessum tímapunkti. Við teljum bara eðlilegra að taka ákvörðun um að minnka.“

Flestir fá hækkun sem sé undir „þakinu“

Spurð hvers vegna ekki hafi verið ákveðið að setja þak á launahækkunina, í stað þess að lækka prósentu hækkana, segir Katrín að þessi aðgerð sé í takt við meginviðmið kerfisins sem geri ráð fyrir hlutfallslegum hækkunum. Telur hún ekki skynsamlegt að skrifa krónutölur inn í lögin.

„Þá „værum við í rauninni komin langt frá þeim laga ramma sem um þetta gildir. Eins og fram hefur komið þá tel ég að lagaramminn í heild sé góður þó að augljóslega þurfum við að meta reynsluna af honum.

Það sem að hefur gerst er að við höfum stigið inn í þennan ramma áður, þetta er ekki í fyrsta sinn, en út frá þessari hækkun, 2,5% hækkun, þá er nú megnið af þeim sem falla undir þessi lög að fá hækkanir undir því sem hefur verið talað um sem þak – sem er auðvitað ekki einlitt, það er aðeins mismunandi milli ólíkra stéttarfélaga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert