Segir launamismuninn viðurkenndan af ríkinu

Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS, segir launamismun félagsfólks sambandsins viðurkendann af …
Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS, segir launamismun félagsfólks sambandsins viðurkendann af ríkinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands (SGS) lítur svo á að ögurstund verði á samningafundi SGS og samninganefndar ríkisins í Karphúsinu á fimmtudaginn.

„Sú ögurstund lýtur að því að það er skýrlaus krafa Starfsgreinasambandsins að það séu greidd sömu laun fyrir sömu vinnu og sömu starfsheiti.“ segir Vilhjálmur.

Hann kveðst ekki trúa öðru en að ríkið uppfylli sínar skyldur hvað það varðar „enda er það andstætt lögum að mismuna fólki eftir stéttarfélagi.“

Kostnaðurinn lendir á ríkinu sama hvað

Vilhjálmur segir SGS hafa farið ítarlega yfir í hverju launamismunurinn er fólgin og að í raun sé ágreiningurinn ekki um hvort hann sé til staðar, heldur hvort og hvernig launamisréttið verði leiðrétt. 

„Okkar barátta snýr bara að því að fá leiðréttan þennan launamismun, sem er viðurkenndur af okkar viðsemjenda, sem er ríkið.“ segir Vilhjálmur. „Ef að svarið verður með neikvæðum hætti þá er alveg ljóst að viðræðurnar eru komnar í strand að mínu mati.“

Spurður segir hann aðgerðir stjórnvalda gegn verðbólgunni, ekki snerta kjaraviðræðu SGS við ríkið á nokkurn hátt, enda séu viðræðurnar sjálfstæðar. Það liggi fyrir sama hvernig málið fari að kostnaðurinn muni alltaf lenda á ríkinu, með einum eða öðrum hætti. 

Verkfall kemur til greina

Vilhjálmur segir verkfall vissulega koma til greina ef samninganefnd ríkisins fallist ekki á kröfu SGS, en að ekkert hafi enn verið ákveðið. 

„Það að sjálfsögðu verður tekið upp á vettvangi formanna Starfsgreinasambandsins, en já ég trúi því. Enda eru formenn Starfsgreinasambands Íslands sammála því að þetta misrétti er ekki hægt að láta viðgangast.

Mál BSRB og SGS gjörólík

Aðspurður hvort löng og erfið kjaradeila BSRB við Samband íslenskra sveitarfélaga geri forystufólk SGS afhuga deilunni að einhverju leyti, segir Vilhjálmur svo ekki vera. Forsendur kröfu SGS og BSRB séu gjörólíkar.

BSRB fari fram á afturvirkni í samningi sem var í gildi við sveitarfélögin. Í máli SGS við ríkið sé hins vegar bent á að launatöflur félagsfólks BSRB, hjá ríkinu, séu umtalsvert hærri en félagsfólks SGS, sem vinna sömu störf. 

„Þetta eru bara gjörólík mál.“  

mbl.is