Telur skerðinguna ekki rýra virðingu em­bætta

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi lækkun launahækkunar. Mynd úr safni.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi lækkun launahækkunar. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Forsætisráðherra sat fyrir svörum á Alþingi í dag þegar breyting á reglubundinni launahækkun þjóðkjörinna fulltrúa og embættismanna var rædd. Tekist var á um það hvort að æskilegt væri að dómarar og forseti fylgdu þingmönnum í þessum efnum meðal annars. Ráðherra sagði mikilvægt að embættismenn sýni gott fordæmi. 

Skerðing launahækkunarinnar var kynnt á dögunum en til stendur að hún fari úr áætluðum sex prósentum niður í 2,5 prósent um næstu mánaðamót. Breytingin er hluti af þeim aðgerðum sem fyrirhugaðar eru til þess að vinna gegn verðbólgu en aðgerðirnar voru kynntar á mánudag.

Í samtali við mbl.is lýsti Kristbjörg Stephensen, formaður Dómarafélags Íslands yfir áhyggjum vegna breytinganna. Um væri að ræða þriðja skiptið á rúmum þremur árum þar sem fyrirhugað sé að svipta dómara þegar áunnum rétti til hækkunar launa.

Þá benti Kristbjörg einnig á að það sé ekki að finna í lögum að laun dómara þurfi að lækka ákveði alþingismenn að sín eigin þurfi að gera það.

Skuli vera eins óháðir og hægt er

Í þingsal í dag mælti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fyrir fyrrnefndri breytingu á launahækkuninni en samkvæmt frumvarpinu nær breytingin ekki einungis til þingmanna og ráðherra heldur einnig forseta Íslands og dómara.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að dómarar skuli vera sjálfstæðir í störfum sínum og óháðir framkvæmda- og löggjafarvaldinu eins og hægt er.

„Þessar grunnreglur réttarríkisins hafa verið skýrðar þannig, m.a. í dómaframkvæmd hér á landi, að ákvörðun launa og kjara dómara verði að taka mið af kröfu um sjálfstæði dómstóla. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 19. desember 2006, í máli nr. E-1939/2006, reyndi á lagasetningu þar sem ákvörðun kjaradóms um hækkun launa embættismanna var numin úr gildi. Íslenska ríkið tapaði málinu og var þar vísað til þess að löggjafinn hefði með sérgreindum hætti hlutast til um löglega ákvörðun þar til bærs aðila. Dómnum var ekki áfrýjað,“ segir í greinargerð frumvarpsins.

Í samræmi við stjórnarskrá og skuldbindingar

Þá er einnig minnst á dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. maí síðastliðnum vegna kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra launa. Þar sé tekið fram að nauðsynlegt væri að gera þær kröfur til stjórnvalda „að ákvarðanir sem hefðu áhrif á launakjör dómara væru ekki teknar nema í kjölfar gagnsærrar, vandaðrar og tryggilegrar málsmeðferðar.“

Einnig er bent á skýrslu sem kom fram í kjölfar vinnu vegna breytingar á lögum vegna brottfalls kjararáðs frá 2019 að „Ekki sé æskilegt að framkvæmdarvaldið komi að ákvörðun launa og starfskjara dómara.“

Einnig sé ákvörðun stjórnvalda um lækkun launahækkunarinnar í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar og eru álit Feneyjarnefndar Evrópuráðsins nefnd sem dæmi.

„Það er því mat ríkisstjórnarinnar að forsvaranlegt sé og í samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar að eitt sé látið yfir alla þjóðkjörna fulltrúa og æðstu embættismenn ganga hverra laun eru ákveðin með lögum. Hér sé mikið í húfi þar sem sanngjarnt sé og eðlilegt að ráðamenn og æðstu embættismenn taki á sig minni hækkun en til stóð,“ segir í greinargerðinni.

Dómarar súpi seyðið af gagnrýni gagnvart þingmönnum

Í kjölfar framsögu forsætisráðherra lýsti Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata yfir áhyggjum vegna fyrirhugaðrar breytingar á launum dómara og forseta. Ekki væri verið að gæta nægilegrar varúðar í þessum efnum. Velti hún því upp hvort að æskilegt væri að dómarar og þingmenn væru settir undir sama hatt í þessum efnum þar sem að oft væri verið að gagnrýna laun þingmanna sem þjóðkjörinna fulltrúa en ekki dómara. Þá þyki henni ekki æskilegt að ítrekað sé verið að gera breytingar á launum dómara og forseta Íslands.

„Mér finnst einhvern veginn eins og við séum alltaf að láta dómara súpa seyðið af því að það er mjög umdeilt hvaða laun við fáum og hvaða launahækkanir við fáum sem erum hér á þingi, sem er bara eðlilegt, mjög skiljanlega. Við erum þjóðkjörnir fulltrúar og við störfum í umboði þjóðarinnar og það er eðlilegt að almenningur hafi skoðanir á því hvaða laun við höfum,“ sagði Þórhildur Sunna.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata sagði dómara súpa seyðið af …
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata sagði dómara súpa seyðið af gagnrýni gagnvart kjörum þingmanna. Mynd úr safni. mbl.is/Hákon

Hún velti því sömuleiðis upp hvort að ráðlagt væri að skilja dómara og forseta frá þingmönnum í launaákvörðunum sem þessum. Svaraði forsætisráðherra á þá leið að hún væri opin fyrir því að skoða það. Þá benti hún einnig á að niðurstaða breytingarinnar árið 2019 hefði verið sú að „dómarar og þjóðkjörnir fulltrúar skyldu fylgja þessu fyrirkomulagi af því að þessir aðilar ættu ekki að heyra undir framkvæmdarvaldið eins og raun og veru staðan er nú með forstöðumenn,“ sagði forsætisráðherra.

Forseti Hæstaréttar með svipuð launakjör og forsætisráðherra

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, tók í svipaðan streng og Þórhildur Sunna og spurði forsætisráðherra hvort að sérstakt mat hafi farið fram vegna dómsins sem féll hjá Héraðsdómi Reykjavíkur gegn ríkinu um laun dómara árið 2006.

„Mig langar að spyrja hæstvirtan ráðherra í hverju sú greining hafi falist sem að varð þess valdandi að tillaga stjórnarflokkanna og hæstvirts ráðherra er með þeim hætti sem hér er, að héraðsdómarar og landsréttar- og hæstaréttardómarar falli að fullu undir þessa tillögu um takmörkun á hækkun launa,“ sagði Bergþór.

Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins spurði hvað hefði orðið til þess …
Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins spurði hvað hefði orðið til þess að dómarar falli undirtillöguna. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forsætisráðherra svaraði spurningu Bergþórs á þá leið að vissulega hefði verið farið yfir fyrri dóma í undirbúningi fyrir þetta frumvarp. Dómurinn árið 2006 hefði þó fallið í öðru lagaumhverfi. Þá ítrekaði hún að frumvarpið snúist ekki einungis um dómara heldur öll sem heyri undir lögin. Nefndi hún að forseti Hæstaréttar hefði svipuð launakjör og forsætisráðherra.

„[...]þannig aðstæður eru uppi að þær kalla á það að þau sem einmitt njóta bestu launakjaranna hjá ríkinu gangi á undan með góðu fordæmi og axli þannig ábyrgð á því að stöðva verðbólguþróun sem getur orðið skaðleg fyrir samfélagið allt. Þetta er hófleg skerðing og ekki tel ég hægt, og við, að greina að hún rýri á nokkurn hátt virðingu þeirra embætta sem undir heyra,“ sagði Katrín.

mbl.is