Óraunverulegt að upplifa mengunina

Jenný Guðmundsdóttir þurfti að setja upp grímu til að verjast …
Jenný Guðmundsdóttir þurfti að setja upp grímu til að verjast menguninni í New York. Samsett mynd

„Ég hef aldrei séð svona reykmengun,“ segir Jenný Guðmundsdóttir í samtali við mbl.is um loftgæðin í New York, en hún hefur verið búsett þar frá því í haust. Greinir hún frá því að vinir hennar úti hafi furðað sig á því, enda komi hún frá Íslandi og hljóti því að upplifa svona lagað reglulega vegna eldgosa.

Jenný leggur stund á leiklistarnám í borginni og segir stemninguna þar í gær hafa verið furðulega.

„Þetta var svo súrrealískur dagur, það var eins og einhver hefði sett appelsínugulan filter á heiminn í kringum mig,“ segir hún og bætir við: „Ég var hrædd. Ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að haga mér því ég er mjög mikil útimanneskja. Ég hjóla í skólann og vil helst alltaf vera úti en í gær þá þurfti maður að halda sig inni.“

Þurfti að ganga með grímu

Eitt af helstu einkennum New York-borgar er að þar gengur fólk flestra sinna ferða. Segir Jenný gangandi vegfarendur í gær hafa verið mun færri en vanalega og flesta hafa keyrt eða tekið lestina til að komast á milli staða.

„Það voru ekkert margir úti á götunum en langflestir sem voru þar voru með grímu á sér. Ég var með nokkrar grímur í veskinu og tók eftir einum heimilislausum manni sem var ekki með grímu og gaf honum. Ég gat ekki látið hann sitja bara þarna og anda þessu lofti að sér,“ segir hún, en loftgæði líkt og þau sem mældust í borginni í gær geta reynst fólki mjög skaðleg.

New York-búar eru ekki óvanir grímunotkun en þrátt fyrir það greinir Jenný frá allt annarri upplifun að nota grímu til að varast loftmengun en til að koma í veg fyrir sjúkdómssmit.

„Munurinn á þessu og Covid er að í heimsfaraldrinum reif maður af sér grímuna þegar maður kom út, en núna setur maður hana upp úti og tekur hana af sér inni. Þannig það er mjög fyndið,“ segir hún.

Ástandið hefur skánað í New York en þó er enn …
Ástandið hefur skánað í New York en þó er enn reykjarmistur yfir borginni. Ljósmynd/Aðsend

Betra ástand í dag

Spurð hvernig nú sé ástatt í borginni segir hún loftgæðin hafa batnað umtalsvert.

„Maður gat ekki séð himininn í gær og allt var appelsínugult hérna á tímabili. Í dag sér maður allavega glitta í bláan himinn en það er samt enn þá þoka yfir borginni. Það sést til dæmis ekki í háu byggingarnar sem maður sér vanalega í fjarska,“ segir hún og tekur fram að þótt ástandið hafi verið óþægilegt í gær þá hafi upplifunin verið einstök.

„Þetta var bara svakalegt. Mér finnst ótrúlegt að ég skuli hafa verið partur af þessum sögulega viðburði,“ segir Jenný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert