Ferjan bilaði og fólk fast í Grímsey

Grímseyjarferjan Sæfari.
Grímseyjarferjan Sæfari. mbl.is/RAX

Sæfari, ferjan sem siglir með fólk á milli Dalvíkur og Grímseyjar, er fastur í Dalvíkurhöfn vegna bilana. Hópur fólks sem á bókað flug úr landi á næstu dögum situr því fastur í Grímsey. 

Grímseyjarferjan Sæfari hóf siglingar aftur á miðvikudaginn eftir að skipið hafði verið í slipp í tíu vikur. Á sumrin siglir Sæfari fimm sinnum í viku til Grímseyjar.

Ferjan átti að leggja af stað frá Dalvík klukkan 9 í morgun og koma klukkan 12 í dag í Grímseyjarhöfn.

Siglir aftur kl. 15

Bergþóra Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustusviðs hjá Vegagerðinni, segir við mbl.is að stýritölva sem stýrir annarri vélinni í ferjunni sé biluð en unnið sé að því að koma henni í lag.

Hún segir Vegagerðina stefna á að siglt verði aftur kl. 15 til Grímseyjar.

Grímseyjarferjan Sæfari á athafnasvæði Slippsins - Akureyri í dag.
Grímseyjarferjan Sæfari á athafnasvæði Slippsins - Akureyri í dag. Skapti Hallgrímsson

Hugsuð sem bráðabirgðaferja

Þó skipið eigi að leggja aftur af stað innan skamms eru þó sumir sem telja þetta vera dæmi um að þörf sé á nýrri ferju, en Sæfari er orðinn 15 ára gamall. Halla Ingólfsdóttir rekur ferðaþjónustufyrirtæki í Arctic Trip í Grímsey. Hún segir ástandið á samgöngum til og frá Grímsey vera miður gott, sérstaklega þar sem það er engin önnur leið til að komast af eyjunni.

„Ég er bara ósátt við það að við fáum ekki nýja ferju,“ segir Halla í samtali við mbl.is. „Það er hópur hér fastur sem er að fara af landi brott og treysti á að komast af landinu í dag.“

Hún bætir við að hún viti enn ekki hvort Vegagerðin, sem sér um rekstur ferjunnar, muni útvega flugvélar fyrir það fólk sem er strandað á eyjunni. 

„Það er aldrei til plan-b,“ segir hún. „Ferjan kom á sínum tíma bara handónýt til landsins og það kostaði mikið að gera hana þokkalega og okkur var sagt að hún yrði bara bráðabirgðaskip.“

„Öllum drullusama“

„Við höfum það svolítið á tilfinningunni að það sé öllum alveg drullusama um þessa eyju,“ segir hún. „Vestmannaeyingar væru orðnir klikkaðir ef þetta bitnaði á þeim.“

Hún segir að ferðaþjónustutímabilið á Íslandi sé stutt og ennþá styttra í Grímsey. „Núna erum við búin að missa allan apríl og allan maí [vegna þess að skipið fór í slipp], við erum komin inn í miðjan júní og þá er ferjan biluð,“ segir Halla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert