Frístundabyggðir fyrirhugaðar við höfuðborgarsvæðið

Uppdráttur af frístundabyggð.
Uppdráttur af frístundabyggð. mbl.is/Mosfellsbær

Til stend­ur að heimila sum­ar­bú­staðabyggðir á tveimur aðliggjandi einkalöndum inn­an bæj­ar­marka Mos­fells­bæj­ar. Svæðið er norðan við Selvatn með aðkomu frá Nesjavallavegi sam­kvæmt nýjum deili­skipu­lagstillögum sem kynntar voru í vor.

Búið er að senda inn at­huga­semd­ir og held­ur nú skipu­lags­full­trúi bæj­ar­ins áfram með málið. Löndin eru á þegar skilgreindu frístundasvæði samkvæmt gildandi aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030 og hefur ekki verið sótt um deiliskipulagsgerð þar fyrr en nú.

Tveimur löndum skipt upp í lóðir

Báðar frí­stunda­byggðirn­ar yrðu á Miðdals­heiði við Selvatn. Einu land­inu yrði skipt upp í 10 lóðir með mögu­leika á 10 sum­ar­bú­stöðum með heim­ild fyr­ir 130 fer­metra bú­stað á hverri lóð.

Hin byggðin, sem er áætluð á svipaðri staðsetn­ingu, yrði svo byggð á landi sem væri skipt upp í fimm lóðir.

Fjór­ar þeirra myndu bera heim­ild fyr­ir 130 fer­metra bú­stað en ein lóðin væri með heim­ild fyr­ir allt að 200 fer­metra bú­stað.

Verða 16 tals­ins

Báðar byggðir hafa fengið at­huga­semd­ir frá hags­munaaðilum og er nú málið enn í vinnslu.

Á fundi skipu­lags­nefnd­ar Mos­fells­bæj­ar var svo samþykkt deili­skipu­lagstil­laga um einn sum­ar­bú­stað á ann­arri lóð á Miðdals­heiði, þar sem hús stóð fyrir og hefur nú heim­ild til endurbyggingar allt að 200 fer­metra í samræmi við aðalskipulag. Því gætu sum­ar­bú­staðirn­ir orðið allt að 16 tals­ins á þessu svæði.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Hér má sjá hvar ein fyrirhuguð sumarbústaðabyggðin verður.
Hér má sjá hvar ein fyrirhuguð sumarbústaðabyggðin verður. Kort/Mosfellsbær
Hér má sjá hvar hin byggðin væri er nefnist Litla­sels­hæð.
Hér má sjá hvar hin byggðin væri er nefnist Litla­sels­hæð. Kort/Mosfellsbær
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert