Bankinn misst trúverðugleika

„Seðlabankinn verður að spyrja sig hvort hann hafi náð, í gegnum þessar miklu sviptingar sem orðið hafa, að viðhalda trúverðugleika sínum […] Mér finnst mjög skýrt sagt að bankinn tali ekki nægilega skýrt um að hann hafi tól sem hann ætli að nota og muni virka.

Þegar bankinn vísar ábyrgðinni á vaxtahækkunum á einhverja aðra aðila í hagkerfinu þá er það ekki til þess að auka mjög trú mína eða annarra held ég á því að bankinn trúi því sjálfur að tólin hans virki til þess að ná árangri.“

Þetta segir Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra í viðtali í Dagmálum sem birt hafa verið á mbl.is.

Ekki meginverkefni ríkisfjármálanna

Gefur hann lítið fyrir þá gagnrýni Seðlabankans að ríkisstjórnin hafi ekki beitt ríkisfjármálunum af nægilegum þunga til þess að vega á móti verðbólgunni. Segir Bjarni að það sé ekki meginverkefni ríkisfjármálanna að tryggja verðstöðugleika, það sé hins vegar eitt meginhlutverk bankans.

Ráðherra kynnti á blaðamannafundi í gær hvernig ríkisstjórnin hygðist ná fram aukinni hagræðingu í ríkisrekstri. Spara á 17 milljarða króna með ýmsum aðgerðum. Meðal annars þeim að fækka starfsfólki á vettvangi hins opinbera. Bendir Bjarni á að það verði bæði gert með því að ekki verður ráðið í störf sem losna en einnig með beinum uppsögnum.

Gæti farið langleiðina

Spurður hvort fimm milljarða aðhald af þessu tagi geti haft áhrif á 400 störf er svarið:

„Það gæti farið langleiðina þangað þegar allt er fram komið.“

Önnur verkefni sem unnið verður að er að draga úr ferðakostnaði ríkisstarfsmanna, ná fram meiri hagræðingu í innkaupum ríkisins og þá verður tilteknum verkefnum á borði einstakra ráðuneyta seinkað. Það á m.a. við um uppbyggingu nýbyggingar samhæfingarstöðvar almannavarna og viðbyggingu við forsætisráðuneytið.

Hér fyrir neðan er hægt að horfa á þáttinn í heild sinni en þessi sérstaki aukaþáttur af Dagmálum.



Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert