Ófrýnileg haustlægð gæti komið á föstudag

Spár gefa til kynna að haustlægð í einhverju formi verði …
Spár gefa til kynna að haustlægð í einhverju formi verði um næstu helgi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gangi veðurspár Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar (ECMWF) eftir má búast við fyrstu haustlægðinni á föstudag. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur á Bliku, skrifar um lægðina og segir hana geta orðið heldur ófrýnilega ef spár ganga eftir. 

„Spár Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar (ECMWF) hafa í nokkra daga reiknað með hagfelldum skilyrðum til lægðarmyndunnar suðvestur af Nýfundnalandi um miðja vikuna. Og að sú lægð dýpki og komi hér upp á Grænlandshaf um helgina,“ skrifar Einar. 

Gangi sú spá eftir verði heilmikið suðaustan slagviðri, einkum um sunnan- og vestanvert landið. 

Hann segir óvenjulegt að sjá svo djúpar lægðir síðla sumars á N-Atlantshafinu. 

„Haustlægð verður hún klárlega, því ekki vantar kalda loftið vestan við Grænland sem þarna verður mætt. Það á sinn þátt vexti lægðarinnar. Vel þekkt samspil, en kalda loftið og háloftadragið sem því fylgir suður yfir Labrador er með augljósan haustbrag þegar það berst í veg fyrir mjög hýtt og rakt loft sem er á leið til norðausturs,“ skrifar Einar. 

Fellibylurinn Franklin gæti komið við sögu

Einar bendir á að fellibylurinn Franklin verði samkvæmd spám á dóli á sama tíma úti á Atlandshafi. Hann sé í talsverðum vexti nú og gæti náð styrk 4. stigs fellibyljar. 

Spákort GFS í túlkun Aleciu M. Bentley veðurfræðings er að mati Einars áhugavert því það sýni átakasvæðin í háloftunum við Nýfundnaland og hve skammt verður í fellibylinn. 

„Litlu má muna að Franklin renni þarna saman við vaxandi lægðina. Annars sýnir kortið einkum rakaflæði í lofthjúpnum, en líka hæð 700 hPa flatarins. Þar sést ma. greinilega hve skart kalda háloftadragið er og að stingur sér niður nærri heita og raka loftinu,“ skrifar Einar. 

Spá ECMWF gerir þó ekki ráð fyrir að fellibylurinn komi við sögu en að um 100 hliðarspár séu reiknaðar hverju sinni. 

„Um 35-40% þeirra gera ráð fyrir því að Franklin sameinist lægðinni. Ef það gerist gæti fjandinn orðið laus, en langt er enn í þessa myndun og fjölmargir óvissuþættir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert