Þurfum að sníða okkur stakk eftir vexti

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég held að við öll sem búum hér séum mjög meðvituð um það að þörfin er brýn,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um samgöngusáttmálann á höfuðborgarsvæðinu. 

Blaðamaður mbl.is innti forsætisráðherra eftir viðbrögðum í kjölfar ummæla Bjarna Benediktssonar,fjármálaráðherra, sem kvaðst þeirr­ar skoðunar að bíða þyrfti með fram­kvæmd­ir að and­virði 100 millj­arða króna í það minnsta, innan samgöngusáttmálans á höfuðborg­ar­svæðinu.

Þarf að uppfæra sáttmálann

„Já, kostnaðurinn er meiri en gert var ráð fyrir í upphafi, en það breytir því ekki að þessi sáttmáli er mikilvægur því hann markar sameiginlega sýn ríkisvaldsins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Katrín.

„Úrlausnarefnin eru þarna og þau eru ekki að fara neitt, þannig það sem blasir við okkur núna og ég tel liggja algjörlega fyrir er að það þarf að uppfæra sáttmálann út frá breyttum forsendum í kostnaði.“

Heildarsýnin fjölbreyttur ferðamáti

Forsætisráðherrann tekur þó skýrt fram að sú sýn sem birtist í sáttmálanum, annars vegar varðandi stofnframkvæmdir og hins vegar varðandi uppbyggingu almenningssamganga, sé rétt sýn fyrir höfuðborgarsvæðið að hennar mati. 

Mikilvægast sé að jafnvægi verði tryggt. Heildarsýnin snúist um fjölbreyttari ferðamáta og því sé ekki einungis nóg að leggjast í stofnframkvæmdir til hagsmuna einkabílsins, sem þó séu mikilvægar, heldur líka tryggja greiðari almenningssamgöngur ásamt bættum hjóla- og göngustígum.

„Þetta snýst ekki bara um greiðari leiðir fyrir fólk heldur líka grænni samgöngur og minni loftslagsáhrif, sem er mjög brýnt að við grípum til aðgerða í. En eðlilega þurfum við að sníða okkur stakk eftir vexti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert