Flytja til að losna við umtal og slúður

Fólk á gangi úti náttúrunni.
Fólk á gangi úti náttúrunni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fólk sem býr í litlum byggðarlögum er líklegra til að flytja þaðan í burtu ef það upplifir mikið slúður í kringum sig.

Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar á smærri byggðarlögum frá árinu 2019 sem voru ræddar á Byggðaráðstefnu 2023 í dag.

Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, kynjafræðingur og doktorsnemi við Háskólann á Akureyri, setti sérstakar spurningar í rannsóknina sem sneru að slúðri, m.a. í tengslum við ástarlíf.

Fleiri flytja frá litlum bæjum vegna slúðurs

Gréta Bergrún sagðist í erindi sínu á Byggðaráðstefnunni telja að í fyrsta skipti hefði verið sýnt fram á með tölfræðilegum gögnum að fólk sé marktækt líklegra til að flytja í burtu frá litlum byggðarlögum vegna slúðurs. Hún sagði bæði konur og karla upplifa jafnmikið slúður í kringum sig.

Fólk var beðið um að nefna helstu ástæðurnar fyrir því að það ætlaði að flytja á næstu tveimur til þremur árum. Þar kom í ljós að 21% svarenda sögðu ástæðuna vera þá að losna við umtal eða slúður.

Fram kom jafnframt að því meira sem fólk upplifði slúður í kringum sig því óánægðri var það með búsetu sína í byggðarlaginu.

Gréta Bergrún Jóhannesdóttir.
Gréta Bergrún Jóhannesdóttir. mbl.is/Líney Sigurðardóttir

Óttinn við skömm meira en samviskubit

Gréta ferðaðist um landið og talaði við konur í sjávarbyggðum með 100 til 500 íbúa. Einnig tók hún viðtöl við konur sem voru brottfluttar.

Varðandi slúðrið sagði hún óttann við skömmina vera meiri en samviskubitið yfir verknaðinum og bætti við að einnig skipti miklu máli hver sagði hvað.

„Það skiptir miklu hvort það er yfirmaðurinn eða sveitarstjórinn sem segir söguna um undirmanninn eða öfugt.”

Augun hvíla á einhleypum konum

Gréta kvaðst hafa fundið fyrir kynbundinni drusluskömmun í viðtölum sínum við konurnar. Sem betur fer færi hún samt minnkandi. Einnig sagði hún augu þessara litlu samfélaga oft á tíðum hvíla á einhleypum konum og hegðun þeirra tengdri ástarlífi eða kynlífi og nefndi að orðsporið lifði oft áfram í sögum af konunum kynslóð fram af kynslóð.

Gréta einbeitti sér að einhleypum konum og sagði félagslega útilokun í garð þeirra hafa komið á óvart. Þeim væri til að mynda ekki boðið í matarklúbba. Paramenning væri mjög sterk í þessum samfélögum.

Einhleypu konurnar sögðu kvænta menn mikið reyna við þær og velti Gréta þá upp spurningunni hver bæri ábyrgð á því. Gegnumgangandi væri hjónadjöfullinn konan sem héldi við kvænta manninn en ekki öfugt.

Sjö dæmi um druslunöfn

Hún nefndi einnig sjö dæmi um druslunöfn sem konur hefðu fengið í smærri bæjarfélögum: Almannagjá, Sparipíkan, Gleðikonan, Gleiðdís, Birkihlíðarbrókin, Klósettkassinn og Gulla graða.

Aðeins eitt nafn kom upp varðandi karla, eða Gulltyppið, sem teldist varla niðrandi. Sem betur fer væri minna um þessi uppnefni núna.

Að sögn Grétu nefndu fleiri konur en karlar að slúður væri ein af ástæðunum fyrir því að þær fluttu í burtu frá byggðarlaginu og oftast komu þær úr minnstu byggðarlögunum. 

Mynd/Glæra úr fyrirlestrinum

Hvað er hægt að gera?

Í lokin velti hún fyrir sér hvað lítil samfélög gætu gert til að stemma stigu við þessari slúðurmenningu. Til dæmis gætu þau hætt að nota gömul og niðrandi uppnefni, tala þyrfti varlega um persónuleg málefni á kaffistofum í opinberum stofnunum, auk þess sem opna þyrfti umræðu um slúður og drusluskömmun. Rugga þyrfti jafnframt fleiri femínískum bátum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert